Viðurkenndi að vera með sjóð foreldranna

Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi
Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi mbl./Eggert Jóhannesson

Daginn eftir umfjöllun Kastljós um Panama-skjölin gekkst Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi, við því að sjóðir foreldra hans væru geymdir í aflandsfélagi í hans eigu. Í samtali við Kastljós svarar Júlíus því ekki beint en segir það ekki satt að hann hafi sölsað undir sig sjóði annarra.

Í Kastljós þætti kvöldsins var rætt við systurson, tvö systkini Júlíusar Vífils og lögmann þeirra. Umfjöllunin byggðist einnig á gögnum sem fengust úr Panama-skjölunum og segir frá leit erfingja Ingvars Helgasonar og Sigríðar Guðmundsdóttir að varasjóði foreldra þeirra sem á að vera inni á reikningum erlendis. Sjóðurinn var enn ófundinn þegar Sigríður lést á síðasta ári.

Eftir að í ljós kom að Júlíus Vífill hefði stofnað aflandsfélag hringdi hann í systkini sín og viðurkenndi að þarna væri um að ræða þann sjóð sem faðir þeirra hefði safnað. Sagði hann þó að Ingvar hefði fært sér og bræðrum sínum yfirráð yfir sjóðnum. Á Júlíus að hafa sagt að hann hafi alltaf ætlað að færa féð inn í dánarbú foreldra sinna en ekki fundið rétta tímann.

Í Kastljósi kom fram að Júlíus Vífill játaði því hvorki né neitaði en sagðist aldrei hafa gengið í eða sölsað undir sig sjóði í eigu annarra. Eins og þekkt er sagði hann af sér sem borgarfulltrúi eftir að upp komst um aflandsfélagið Silwood sem hann stofnaði í árslok 2013.

Í þættinum er greint frá því að Júlíus Vífill hafi sent Kastljósi skilaboð í dag þar sem hann segir að það sem komi þar fram séu „ýmist algjör ósannindi eða ómerkileg illmælgi“. Segir hann jafnframt að um sé að ræða getgátur og dylgjur sem byggist ekki á neinum gögnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert