Eignirnar skipta máli, ekki eigendur

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson. mbl.is/Eggert

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ekki áhyggjur af dómsmálum vegna frumvarps um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Brynjar var flutningsmaður nefndarálits meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar á þingfundi sem hófst klukkan átta í kvöld. Allir nefndarmenn efnahags- og viðskiptanefndar stóðu að meirihlutaálitinu nema Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna.

Í nefndarálitinu segir að efni frumvarpsins feli í sér að áfram verði takmarkanir á ráðstöfunarrétti eigenda svonefndra aflandskróna en í máli Brynjars kom fram að aflandskrónueigendur hafi sætt takmörkunum allt frá því að fjármagnshöftum var komið á árið 2008 í kjölfar fjármálahrunsins.

Sagði Brynjar eigendur aflandskróna njóta verndar eignaréttarákvæðis stjórnarskrár og því væri það mikilvægt að takmörkun á ráðstöfun umræddra eigna væri gerð með skýrum hætti í lögum, líkt og væri gert verði frumvarpið samþykkt.

„Með frumvarpinu er ekki gengið lengra en nauðsyn er, það er gætt meðalhófs. Reiknað er með því að menn geti farið í útboð eins og menn hafa gert í tugi skipta og fengið gjaldeyri fyrir aflandskrónurnar. Engu er verið að breyta í því,“ sagði Brynjar í ræðustól Alþingis og bætti við að ef menn kysu ekki að taka þátt í því núna þá séu eignirnar áfram háðar takmörkunum.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hverjir eiga aflandskrónurnar

Össur Skarphéðinsson sagðist óttasleginn yfir því hvort verið væri að brjóta í bága við ýmsar greinar stjórnarskrár með frumvarpinu þar sem verið væri að uppfylla jafnræðiskröfuna með því að gera ráð fyrir því að í hópi eigenda aflandskróna væru Íslendingar á meðal erlendra aðila.

Gagnrýndi Össur að ekki hefði verið gengið lengra í því að komast að því hverjir eigendur eignanna væru í frumvarpinu, m.a. til að styrkja stöðu Íslands til þess að sýna fram á að Íslendingar væru á meðal eigenda þessara eigna kæmi til dómsmáls.

Brynjar sagði það ekki skipta höfuðmáli að vita hverjir raunverulegir eigendur væru. „Það er ekki höfuðatriðið,“ sagði Brynjar. „Höfuðatriðið er að eignirnar eru kvikar og munu leita út verði höftunum aflétt. Ég tel því að það sé ekki mismunun því þetta gildir um allar krónur sem eru vel skilgreindar,“ sagði Brynjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert