Prjóna vettlinga í gömlu beitningahúsi

Síðastliðin sex ár hafa hjónin Vilborg Stefánsdóttir, kerfisstjóri og grunnskólakennari, og Jón Rúnar Jónsson hafnarvörður, í félagi við foreldra Vilborgar, starfrækt Prjónastofuna Vöndu á efri hæð svokallaðs Villahúss á Þórshöfn. Eftir nokkurt basl fyrsta árið fór prjónaskapurinn að ganga ljómandi vel og núna framleiða þau 6.500 vettlingapör á ári.

Jón Rúnar Jónsson, hafnarvörður hjá Langanesbyggð, var ekki með neitt sérstakt á prjónunum þegar hann var að vafra á netinu kvöld eitt fyrir sex árum. „Ég rak fyrir tilviljun augun í auglýsingu þar sem prjónavélar voru auglýstar til sölu og þá laust þeirri hugmynd niður í kollinn á mér að gaman væri að stofna lítið fyrirtæki,“ segir Jón Rúnar sposkur á svip.

Að höfðu samráði við konu sína, Vilborgu Stefánsdóttur, kerfisstjóra og kennara í upplýsingatækni við Grunnskólann á Þórshöfn, slógu þau til og keyptu vélarnar og efni til vinnslunnar.

Fyrirtækið fékk nafnið Vanda og eru foreldrar Vilborgar meðeigendur í því. Prjónaskapurinn hófst en byrjunarerfiðleikar gerðu þeim lífið leitt fyrsta árið því nokkuð var um bilanir á vélum.

Fór suður með vélunum

„Á þeim tímapunkti sáum við eftir öllu saman og spurðum okkur sjálf hvað við værum búin að koma okkur út í,“ segir Vilborg, því kostnaðarsamt var að senda vélarnar burt til þjónustuaðila sem er ekki beint í næsta húsi, frá Þórshöfn til Reykjavíkur.

Þau lögðu þó ekki árar í bát enda er landsbyggðarfólk vant því að þurfa að bjarga sér með ýmsa hluti. Jón Rúnar ákvað að hann yrði bara sjálfur að sjá um viðgerð og þjónustu á vélbúnaðinum og fór suður með vélunum, þar sem hann fylgdist með viðgerð, og hefur síðan sjálfur séð að mestu leyti um viðhald vélanna.

Eftir fyrsta baslárið fór prjónaskapurinn að ganga ljómandi vel og salan líka. „Við seljum beint til stórra aðila og heildsala,“ segir Vilborg, „aðalviðskiptavinir eru bændur, byggingarverktakar og hestafólk.

Á þessum sex árum höfum við farið úr því að selja eitt þúsund pör upp í 6.500 pör en fyrsta árið var það heilmikil vinna að prjóna og senda frá sér fimmtíu pör. En í dag er þetta mjög skemmtilegt verkefni.“

Léttir og hlýir

Þessi söluaukning má kallast góð og vettlingarnir reynast vel. Þeir eru úr ullarblöndu; léttir, slitsterkir og hlýir.

Prjónastofan Vanda hóf reksturinn í húsnæði í eigu bróður Jóns Rúnars en er nú komin í annað húsnæði í hjarta bæjarins, sem er að sjálfsögðu hafnarsvæðið.

Vilborg og Jón Rúnar vinna bæði fulla vinnu utan heimilis og prjónaverkefnið bætist við það. Allt gengur það vel og samhent fjölskylda hjálpast að. Foreldrar Vilborgar eru meðeigendur í fyrirtækinu og Hólmfríður móðir hennar vinnur þar líka við frágang á vettlingum, saumaskap og fleira. Auk þess er hún ómetanlega góð amma sem gott er að eiga að og börnin eiga alltaf vísan samastað hjá henni og afa í sveitinni í Laxárdal í Þistilfirði.

Barnalánið fylgir hjónakornunum Vilborgu og Jóni Rúnari því þau eignuðust litla dóttur á öðrum degi hvítasunnu, þann 16. maí. Það er þriðja barn þeirra saman en fyrir á Jón Rúnar önnur þrjú svo að börnin eru nú sex alls. Bæði Jón og Vilborg koma úr stórum fjölskyldum, hvort um sig úr sjö systkina hópi, „barnaafmælin hér eru bæði fjölmenn og fjörug,“ segja þau hlæjandi.

Eitt barn enn?

„Það er samt spurning hvort við þurfum ekki að eignast eitt barn enn til að ná sömu fjölskyldustærð og við komum úr sjálf,“ segir Jón Rúnar kíminn, alsæll með nýfæddu dótturina og eiginkonuna. Litla stúlkan fæddist á Akureyri, aðeins fyrr en hennar var vænst, en fjölskyldan var búin að koma sér fyrir á Akureyri örfáum dögum áður. Konur á landsbyggðinni eru ekki jafn vel settar og þær sem búa á svæði þar sem fæðingarþjónusta er fyrir hendi.

„Hér þurfum við, líkt og margar aðrar konur, að fara að heiman um það bil viku fyrir áætlaða fæðingu, jafnvel fyrr yfir vetrartímann í vondri tíð. Flestar konur hér fara til Akureyrar, sem er næst okkur. Þetta þýðir kostnað vegna leiguhúsnæðis þann tíma sem beðið er eftir barninu og það er jú alltaf fyrirhöfn að flytja, oftast með alla fjölskylduna, og koma sér fyrir annars staðar. Því fylgir líka tilheyrandi kostnaður sem taka þarf með inn í fjárhagsáætlun,“ segja þau.

Vilborg og Jón Rúnar segjast samt nokkuð vel sett og kvíða ekki framtíðinni. Þau keyptu sér gamalt hús á Þórshöfn og eru að gera það upp í rólegheitunum. „Við tókum aldrei þátt í neinu kapphlaupi eða „þensludansi“ á sínum tíma og skuldsettum okkur ekki, þess vegna kom hið margumtalaða hrun ekki við okkur,“ segja Vilborg og Jón Rúnar, sem eru ánægð með tilveruna og alltaf með ýmislegt á prjónunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert