Þak fauk á Ísafirði

Björgunarskipið Gunnar Friðriksson var kallað út um kl 17 í …
Björgunarskipið Gunnar Friðriksson var kallað út um kl 17 í gær ásamt slöngubátnum Sirrý vegna skútu sem hafði losnað úr legufæri og hafði rekið upp í grjótgarðinn við bensínstöðina en hvesst hafði eftir hádegið. Gunnar hélt þegar á staðinn og kom taug í skútuna og kom henni til hafnar. ljósmynd/Björgunarfélag Ísafjarðar

Björgunarsveitarmenn voru kallaðir út á Ísafirði í gærkvöldi vegna bárujárnsplatna sem höfðu fokið af húsi í hvassviðri sem gekk yfir Vestfirði. Að sögn lögreglu lægði undir miðnætti en fyrr um daginn var mannlausri skútu sem hafði losnað bjargað úr grjótgarði við Pollgötu.

Skútan losnaði frá legufæri á Pollinum á Ísafirði seinni partinn í gær og rak upp í grjótgarðinn. Að sögn lögreglunnar á Ísafirði voru menn fljótir að bregðast við og héldu skútunni þannig að hún skemmdist ekki á grjótinu.

Björgunarskipið Gunnar Friðriksson dró skútuna síðan að bryggju.

Liðsmenn björgunarsveitanna fergðu einnig þak hússins þar sem þakplötur höfðu farið á flug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert