Barcelona með æfingabúðir á Íslandi

Mynd/Knattspyrnuakademía Íslands

„Barcelona er að fara af stað í fyrsta skiptið með sérstakan knattspyrnuskóla fyrir stúlkur á þessum aldri utan Spánar og við erum stoltir af því að þeir vilji byrja hér,“ segir Logi Ólafsson hjá Knattspyrnuakademíu Íslands en í júlí mun knattspyrnufélagið Barcelona halda æfingabúðir fyrir stelpur hér á landi.

„Þetta kemur til í gegnum varaforseta Barcelona, Carles Villarubí i Carrió, fyrir milligöngu Ingu Lindar Karlsdóttur. Þeir eru að fara af stað með þetta verkefni og byrja hér og við erum mjög stoltir af því að þeir vilji byrja hér. Við hikuðum ekkert þegar okkur stóð til boða að gera þetta með þeim,“ segir Logi.

Segir í tilkynningu að Barcelona sé nú að leggja mikla áherslu á kvennafótbolta og að atvinnumennska hafi komist á hjá kvennaliði þeirra í fyrra. 

Æfingabúðirnar verða á Valsvellinum 8. – 13. júlí í sumar. Lýkur þeim með lokahófi þar sem Villarubí i Carrío flytur ávarp. Æfingabúðirnar eru fyrir stelpur á aldrinum 10–16 ára og er skráning inni á heimasíðu knattspyrnuakademíunnar

Þá er einnig stefnt að því að kvennalið Barcelona komi til landsins til að leika æfingaleik við íslenskt kvennalið. Er að sögn Loga verið að vinna að skipulagningu þess. 

Barcelona mun leggja til þjálfara, skipulagningu og þekkingu en Knattspyrnuakademían mun að sögn Loga leggja til aðstoðarmenn. „Þeir koma hingað með sína menn sem stjórna þessu og svo verða aðstoðarmenn frá okkur sem verða með,“ segir Logi.

Logi Ólafsson hjá Knattspyrnuakademíu Íslands.
Logi Ólafsson hjá Knattspyrnuakademíu Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert