Fyrsti byggingarfulltrúinn með ISO 9001-vottun

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík hefur hlotið vottun samkvæmt ISO 9001 um gæðastjórnunarkerfi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Í staðlinum eru settar fram kröfur um það hvað gæðastjórnun á að uppfylla. Byggir það á þörfum viðskiptavina með réttum eiginleikum þeirrar þjónustu sem þeir njóta og gerðar eru kröfur til birgja sem þjónusta embættið.

Felst kjarni ISO 9001 í ferlisstjórnun. Þannig eru öll ferli sem starfsemi byggingafulltrúa tekur til nú römmuð inn og túlkuð sem viðfangsefni stjórnunar. Segir í tilkynningunni að það hjálpi starfsfólki að greina óskir viðskiptavina og að ná árangri í störfum, meðal annars með skráningum kvartana og könnunum á meðal viðskiptavina. Er þá brugðist við því sem fer aflaga og lærdómur dreginn af því.

Nikulás Úlfar Másson, byggingarfulltrúi í Reykjavík, segir slík gæðakerfi gera vinnuna handhægari og þægilegri. „Starfsfólk byggingarfulltrúa vinnur í flóknu umhverfi hvað varðar lög og reglugerðir og því mikilvægt að hafa svona gæðakerfi sem skýrir út alla verkferla hjá embættinu og gerir vinnuna handhægari og þægilegri,“ segir Nikulás í tilkynningunni.

Sjá frétt Reykjavíkurborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert