Varað við stormi á Norðvesturlandi

Spáð er stormi á norðvestanverðu landinu með kvöldinu.
Spáð er stormi á norðvestanverðu landinu með kvöldinu. mbl.is/Rax

Veðurstofan varar við mögulegum stormi á svæðinu frá Snæfellsnesi og norður og austur í Eyjafjörð í kvöld og seint í nótt. Skæðustu vindstrengirnir verða þar sem suðvestanáttin stendur af fjöllum. Þar sem vindur stendur af landi verður þurrara og bjartara.

Hvasst hefur verið á landinu en sunnanáttin á að ganga niður með morgninum og draga úr rigningu samkvæmt spá Veðurstofunnar. Það er hins vegar skammgóður vermir því hvessa á aftur í kvöld og nótt. 

Í hugleiðingum veðurfræðings sem birtist á vef Veðurstofunnar kemur fram að hæð sé fyrir austan land sem stýrir veðrinu hjá okkur þessa dagana og standi hún það fast í lappirnar að lægðir þurfa að troða sér til norðurs milli Íslands og Grænlands. Þrýstimunur er mikill yfir landið og því vindasamt.

Veðurstofan gerir ráð fyrir að víða verði suðvestan 8–13 m/s síðdegis og dálítil væta. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast norðaustan til.

Í kvöld og nótt hvessir aftur, suðvestan 10–15 undir morgun, en 15–23 norðvestan- og norðanlands. Smám saman dregur úr vindi þegar líður á morgundaginn, víða 8–13 undir kvöld. Dálítil væta af og til á morgun og hiti 8 til 13 stig, en þurrt að mestu norðaustan til og hiti 14 til 20 stig.

„Loftið sem berst yfir landið er af suðlægum uppruna og er hlýtt í grunninn, en ský og rigning halda aftur af hitanum nærri jörðu á sunnan- og vestanverðu landinu. Þar sem vindur stendur af landi er þurrara og bjartara og náði hiti í tæp 18 stig á Húsavík og Egilsstöðum í gær. Líkur eru á að hiti muni rjúfa 20 stiga múrinn í norðausturfjórðungi landsins einhvern næstu daga,“ segir á vef Veðurstofunnar. 

Nýjustu spár geri ráð fyrir að vindinn lægi smám saman á laugardag og að dagana þar á eftir taki við svalara og aðgerðarminna veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert