Viðvörun vegna hvassviðris

Vindaspáin fyrir klukkan þrjú í nótt.
Vindaspáin fyrir klukkan þrjú í nótt. kort/Veðurstofa Íslands

Búist er við hvassviðri eða stormi (15–23 m/s) norðvestanlands seint í nótt og fram að hádegi á morgun að sögn Veðurstofu Íslands sem hefur sent frá sér viðvörun.

Veðurfræðingur skrifar á vef VÍ að það muni bæta í vind í kvöld og seint í nótt gæti orðið hvassviðri eða stormur á svæðinu frá Snæfellsnesi og norður og austur í Eyjafjörð. Skæðustu vindstrengirnir verða þar sem suðvestanáttin stendur af fjöllum og gætu þá trampólín átt erfitt með að halda kyrru fyrir. 

„Það er hæð fyrir austan land sem stýrir veðrinu hjá okkur þessa dagana og stendur hún það fast í lappirnar að lægðir þurfa að troða sér til norðurs milli Íslands og Grænlands. Þrýstimunur er mikill yfir landið og því vindasamt.

Loftið sem berst yfir landið er af suðlægum uppruna og er hlýtt í grunninn, en ský og rigning halda aftur af hitanum nærri jörðu á sunnan- og vestanverðu landinu. Þar sem vindur stendur af landi er þurrara og bjartara og náði hiti í tæp 18 stig á Húsavík og Egilsstöðum í gær. Líkur eru á að hiti muni rjúfa 20 stiga múrinn í norðausturfjórðungi landsins einhvern næstu daga.
Nýjustu spár gera ráð fyrir að vindinn lægi smám saman á laugardag og að dagana þar á eftir taki við svalara og aðgerðarminna veður,“ segir í hugleiðingum veðurfræðingsins.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert