Frumvarp um millidómstig samþykkt

Frumvarpið var samþykkt á Alþingi í morgun.
Frumvarpið var samþykkt á Alþingi í morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Alþingi hefur samþykkt frumvarp þess efnis að stofnað verði millidómstig hér á landi þannig að dómstigin verði þrjú, þ.e. héraðsdómstólar, Landsréttur og Hæstiréttur.

Það var innanríkisráðherra sem lagði fram frumvarpið. 

Samkvæmt frumvarpinu verður sameiginleg stjórnsýsla allra þriggja dómstiga færð undir nýja, sjálfstæða stjórnsýslustofnun, dómstólasýsluna, og stjórnsýsla dómstólanna þar með efld og sjálfstæði þeirra styrkt.

Millidómstiginu er ætlað að koma til móts við alþjóðlegar kröfur um milliliðalausa sönnunarfærslu, létta álagi af Hæstarétti og tryggja að honum sé betur fært að sinna hlutverki sínu sem fordæmisgefandi dómstóll.

Dómurum við Hæstarétt verður fækkað úr níu í sjö og fimm dómarar taka hverju sinni þátt í meðferð máls. Dómurum við héraðsdómstóla verður fjölgað úr 38 í 42.

Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs aukist um 506 milljónir króna á ársgrundvelli frá fjárlögum 2016.

Frumvarp um meðferð einkamála og sakamála einnig samþykkt

Einnig var samþykkt frumvarp á Alþingi um meðferð einkamála og sakamála. 

Þar er gert ráð fyrir að meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu verði betur fylgt fyrir Landsrétti, bæði í einkamálum og sakamálum, en unnt er samkvæmt gildandi lögum fyrir Hæstarétti.

Almennur áfrýjunarfrestur í einkamálum verður styttur úr þremur mánuðum í fjórar vikur.

Tiltölulega þröng heimild verður til að áfrýja héraðsdómi í einkamáli beint til Hæstaréttar ef þörf er á skjótri niðurstöðu í máli.

Áfrýjun á dómum Landsréttar til Hæstaréttar verður í öllum tilvikum háð leyfi Hæstaréttar. Lagt er til að kæruheimildir til Hæstaréttar verði mjög fáar.

Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs vegna tilkomu millidómstigs aukist um tæpar 110 milljónir króna á ársgrundvelli, frá fjárlögum 2016, árin 2018 til 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert