Ísland aðili að Geimvísindastofnuninni?

Alþjóðlega geimstöðin, ISS.
Alþjóðlega geimstöðin, ISS.

Þingmenn úr öllum flokkum hafa lagt fram þingsályktunartillögu þar sem utanríkisráðherra er falið að sækja um aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu.

Geimvísindastofnun Evrópu var sett á laggirnar árið 1975. Aðildarríki hennar eru nú 22 talsins og eru öll hin norðurlöndin aðilar að stofnuninni. Verkefni stofnunarinnar eru meðal annars framkvæmd og útfærsla á langtímastefnu í geimvísindamálum og tillögum um sameiginleg markmið aðildarríkjanna í geimvísindum og annarra alþjóðastofnana.

Sér ESA einnig um samræmingu evrópsku geimferðaráætlunarinnar og áætlana aðildarríkjanna, sér í lagi varðandi þróun gervihnattabúnaðar. Þá sér stofnunin einnig um rannsóknir á jörðinni, til dæmis á sviði veðurfræði, líffræði og jarðfræði.

Telja þingmennirnir að þótt tillagan virðist róttæk í fljótu bragði, sé aðild Íslands að stofnuninni eðlilegt framhald þess vísindastarfs sem þegar hefur verið byggt upp á Íslandi. „Íslenskir vísindamenn nota nú þegar gögn frá Geimvísindastofnun Evrópu, m.a. við rannsóknir á jarðhræringum og veðurfari. Ísland stendur framarlega í rannsóknum á segulsviði jarðar og hingað til lands koma vísindamenn á vegum stofnunarinnar til þess að prófa tæki sem eru t.d. notuð í gervihnetti,“ segir í greinargerð frumvarpsins.

„Með aðild gæti Ísland notfært sér í auknum mæli þau tæki sem stofnunin býr yfir og haft áhrif á rannsóknarstarf hennar, svo sem hvernig ferðir gervitungla eru skipulagðar. Slík áhrif kæmu íslensku vísinda- og rannsóknarstarfi mjög til góða, svo sem við rannsóknir á landrisi og þróun jökla, veðurfari, hafís og hitabreytingum sem geta gert viðvart um eldgos, svo fátt eitt sé nefnt,“ segir enn frekar.

Varðandi kostnað þá er aðildarríkjum sameiginlega skylt að standa undir þriðjungi af starfsemi stofnunarinnar en þar fyrir utan eru valfrjáls verkefni fjármögnuð af aðildarríkjum. Hverju aðildarríki er í sjálfsvald sett í hvaða valfrjálsu verkefnum það tekur þátt í.

„Í staðinn fjárfestir stofnunin í aðildarríkjum með úthlutun verkefna sem efla rannsóknir og nýsköpun og miðast þá fjárhæðin við fjárframlag frá viðkomandi ríki. Þótt stofnunin sé ekki hluti af Evrópusambandinu er mikið náin samvinna þar á milli og um 22% af árlegum fjárframlögum til stofnunarinnar kemur frá Evrópusambandinu,“ segir í greinargerðinni.

Flutningsmenn tillögunnar eru Helgi Hrafn Gunn­ars­son, Katrín Jak­obs­dótt­ir, Páll Val­ur Björns­son, Ásta Guðrún Helga­dótt­ir, Helgi Hjör­v­ar, Katrín Júlíus­dótt­ir, Birgitta Jóns­dótt­ir, Ró­bert Mars­hall, Össur Skarp­héðins­son, Ótt­arr Proppé, Lí­neik Anna Sævars­dótt­ir,
Vil­hjálm­ur Árna­son og Svandís Svavars­dótt­ir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert