Mistök að segja erfitt að eiga peninga á Íslandi

Sigurður Ingi Jóhannsson var nokkuð gagnrýndur fyrir ummæli um að …
Sigurður Ingi Jóhannsson var nokkuð gagnrýndur fyrir ummæli um að erfitt væri að eiga peninga á Íslandi. mbl.is/Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir þau ummæli sem höfð voru eftir honum að erfitt væri að eiga peninga á Íslandi hafa verið óheppileg og klár mistök af sinni hálfu. Þau hafi hins vegar verið slitin úr samhengi. Hann hafi aðeins vísað til þess að sumir ættu meiri peninga en aðrir.

Ummælin hafa ítrekað verið hermd upp á Sigurð Inga, en þau lét hann falla þegar hann var að koma út af ríkisstjórnarfundi í kjölfar uppljóstrana úr Panamaskjölunum.

„Voru þetta mistök af minni hálfu? Klárlega. Ég hefði getað orðað þetta miklu betur,“ sagði Sigurður Ingi þegar Páll Magnússon, stjórnandi útvarpsþáttarins Sprengisands á Bylgjunni, spurði hann út í ummælin í morgun.

Forsætisráðherra segir að hann hafi verið að vísa til þess að þrátt fyrir að jöfnuður sé mikill á Íslandi séu ekki allir jafnir hér. Sumir eigi meiri peninga en aðrir.

„Það er eitt af því sem er kannski galli á þjóðarsál okkar. Við erum stundum með þá á milli tannanna sem eiga meiri peninga en meðalmanneskjan. Í því samhengi missti ég þetta út úr mér,“ sagði Sigurður Ingi.

Við þessar aðstæður hafi ummælin verið óheppileg en þau hafi ekki endurspeglað spjall hans við fréttamann á tröppum Stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert