Þróa götusópara hafsins

Einföld teikning af sjávarþangsvélinni.
Einföld teikning af sjávarþangsvélinni. asco Harvester

Asco Harvester er eitt sex frumkvöðlafyrirtækja sem hlutu styrk úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka í vikunni. Asco hlaut 2,5 milljóna króna styrk sem var jafnframt hæsta úthlutunin en alls voru veittar 10 milljónir króna  í styrki.

Asco vinnur að þróun sjávarþangsvélar sem slær sjávargróður og hreinsar rusl úr sjó og höfum. Þörungaverksmiðjan á Reykhólum hefur slegið þang í mörg ár og verið framarlega í þessari þróun frá um 1970 en Asco Harvester vinnur að hönnun vélar sem er betur í stakk búin fyrir íslenskar aðstæður.

Vélin er smíðuð í Borgarnesi og gengur smíðin vel að sögn Önnu Ólafar Kristjánsdóttur framkvæmdarstjóra. „Það er frábært að fylgjast með hugmyndinni sem var bara á blaði fyrir svo stuttu síðan, verða raunverulega til,“ segir Anna og segir hún styrkinn koma á einkar heppilegum tíma í ferlinu.

asco Harvester

Svona verkefni segir Anna vera nokkuð erfitt að fjármagna og ætlar hún að kostnaður við frumgerð vélarinnar muni nema um 50 milljónum króna. Þetta er ekki fyrsti styrkurinn sem Asco fær í sinn hlut en í janúar fékk fyrirtækið sjö milljóna frumkvöðlastyrk úr Tækniþróunarsjóði auk 2,5 milljóna styrks úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands í gegnum Samtök sveitafélaga á Vesturlandi. Þá hafi fyrirtækið átt gott samstarf við Íslandsbanka og ítrekar Anna þakklæti fyrirtækisins fyrir styrkina.

„Ég horfi svolítið á það þannig að þetta sé svona eins og götusópari, þetta er sambærileg vél nema hún virkar í hafinu og í höfnum“ segir Anna að lokum. Stefnt er að því að sjósetja sjávarþangsvélina í lok sumars og færir styrkurinn fyrirtækið skrefinu nær því markmiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert