„Að koma sök á saklausa menn“

Sigurður Einarsson.
Sigurður Einarsson. mbl.is/Ómar

„Sorglegt hvað kerfið hefur lítið þróast og enn tíðkast vinnubrögð eða aðferðafræði lögreglu og saksóknara til að koma sök á saklausa menn,“ skrifar Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, í pistli á Facebook þar sem hann ber rannsókn á Guðmundar- og Geirfinnsmáli saman við rannsókn á málum bankanna eftir hrun.

Morgunblaðið sagði frá því í morgun að tveir menn hefðu verið handteknir í gærmorgun og færðir til skýrslutöku vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins.

„Það barst ábend­ing sem þurfti að kanna og það varð að gera það með þess­um hætti, að hand­taka tvo menn hvorn í sínu lagi og gefa skýrslu,“ sagði Davíð Þór Björg­vins­son, sett­ur sak­sókn­ari end­urupp­töku málsins, um hand­tök­ur og yf­ir­heyrsl­ur gær­dags­ins, í samtali við mbl.is í dag.

„Óheiðarlegar löggur sem knúðu fram falskar játningar“

Sigurður, sem var dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Al Thani-málinu svokallaða, skrifar pistil á Facebook-síðu sinn í dag þar sem hann segir að það sé ótrúlegt að fyrir 42 árum hafi „starfað hjá lögregluembættinu hér á Íslandi óheiðarlegar löggur sem knúðu fram falskar játningar og afvegaleiddu þjóðina í gegnum fjölmiðla með upplýsingum sem áttu sér enga stoð í raunveruleikanum. Með einbeittum vilja og röngum gögnum gerðu þeir allt til að nánast heilaþvo þjóðina í þeim tilgangi einum að knýja fram brenglaða stemmningu í samfélaginu gagnvart sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Stemmningu sem síðar hafði áhrif í dómsal þar sem ungt saklaust fólk fékk þunga dóma.“

Vonar að kerfið afhjúpi gögn sem embættismenn sérstaks saksóknara hafi leynt

Sigurður heldur áfram og segir sorglegt „hvað kerfið hefur lítið þróast og enn tíðkast vinnubrögð eða aðferðafræði lögreglu og saksóknara til að koma sök á saklausa menn. Hvað er það í samfélaginu okkar sem klikkar þegar við horfum framhjá því að illa innrættir einstaklingar finni brestum sínum farveg í embættisstörfum hjá lögreglu, saksóknara eða dómsstólum. Einstaklingar sem eru tilbúnir til að sveigja lögin sem landið byggist á í þeim tilgangi að koma fólki í fangelsi sem í raun hefur engin lög brotið.

Vona að kerfið taka sér styttri tíma í að afhjúpa gögn sem embættismenn Sérstaks saksóknara leyndu til að gera málefni bankanna grunnsamleg í þeim tilgangi einum að koma sem flestum sem störfuðu fyrir föllnu bankanna í fangelsi. Þeir eru enn að og ekki útséð með hversu margir munu fá dóma en gætu orðið í kringum 40 manns í lokin ef það verður einhver endir á þessum málum.“

Hann spyr að lokum hvort nútímasamfélag Íslands geti „réttlætt þann gjörning að sveigt sé frá lögum í þeim tilgangi að sefa reiði almennings eða uppfylla stemmningu sem fáeinir misvitrir embættismenn telja sig greina í samfélaginu?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert