Óheimilt að synja íbúa um húsaleigubætur

Reykjavíkurborg er óheimilt að mismuna þeim, sem þar eiga lögheimili, …
Reykjavíkurborg er óheimilt að mismuna þeim, sem þar eiga lögheimili, nema slíkt styðjist við málefnaleg rök. Sú skylda hvíldi á borginni að gæta þess við afgreiðslu á umsókn konunnar að ekki yrði á hana hallað í samanburði við aðra íbúa sveitarfélagsins sem njóta þeirra bóta. mbl.is/Styrmir Kári

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja beiðni konu, sem er öryrki, um sérstakar húsaleigubætur þar sem hún leigði íbúð af Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins. Var konunni synjað þar sem hún var ekki leigjandi á almennum leigumarkaði eða væri í leiguíbúð á vegum Félagsbústaða.

Dómurinn féll sl. fimmtudag en þar staðfestir Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 17. apríl 2015.

Konan, sem er öryrki og glímir við mikinn félagslegan vanda, tók íbúð á leigu í september 2012 af Brynju. Samkvæmt leigusamningi, sem þá var gerður, var hann tímabundinn þannig að leigutími hófst 15. september 2012 og lauk 15. mars 2013. Jafnframt átti konan sem leigjandi forgangsrétt að húsnæðinu að leigutíma loknum og fram kemur að hún búi enn í íbúðinni.

Á árinu 2013 fór konan fram á að fá greiddar svonefndar sérstakar húsaleigubætur frá Reykjavíkurborg. Í nóvember það ár var umsókninni hafnað, meðal annars með svohljóðandi rökstuðningi: „Samkvæmt 3. gr. í reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík uppfyllir sá ekki skilyrði um sérstakar húsaleigubætur sem leigir húsnæði sem ekki er á almennum leigumarkaði eða er ekki í leiguíbúð á vegum Félagsbústaða.“

Konan höfðaði mál í mars 2014 þar sem hún krafðist ógildingar á ákvörðun borgarinnar á beiðni hennar um sérstakar húsaleigubætur. Hún vann sigur í héraðsdómi, sem fyrr segir. Reykjavíkurborg skaut málinu svo til Hæstaréttar í september 2015 og lá endanlegur dómur fyrir í síðustu viku.

Borgin fullnægði ekki skyldu sinni á viðhlítandi hátt

Í dómi Hæstaréttar kemur fram, að með hliðsjón af 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar væri borginni heimilt að setja almennar reglur um félagslegar íbúðir og sérstakar húsaleigubætur að því tilskildu að þær brytu ekki í bága við ákvæði laga um húsaleigubætur eða önnur viðeigandi lagaákvæði.

Sú skylda hvíli á Reykjavíkurborg sem sveitarfélagi að gæta þess við afgreiðslu á umsókn konunnar um sérstakar húsaleigubætur samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga að ekki væri á hana hallað í samanburði við aðra íbúa sveitarfélagsins sem nytu þeirra bóta, en meðal þeirra væru leigjendur hjá Félagsbústöðum sem byggju óumdeilanlega við hliðstætt húsnæðisöryggi og konan.

Þar sem Reykjavíkurborg hafði ekki fullnægt þessari skyldu sinni á viðhlítandi hátt var ákvörðunin felld úr gildi.

Orðrétt segir í dómi Hæstaréttar: „Sökum þess að áfrýjanda [Reykjavíkurborg] er sem sveitarfélagi óheimilt að mismuna þeim, sem þar eiga lögheimili, nema slíkt styðjist við málefnaleg rök hvíldi sú skylda á honum að gæta þess við afgreiðslu á umsókn stefndu [konunnar] um sérstakar húsaleigubætur samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ekki væri á hana hallað í samanburði við aðra íbúa sveitarfélagsins sem njóta þeirra bóta. Meðal þeirra eru leigjendur hjá Félagsbústöðum hf. sem búa óumdeilanlega við hliðstætt húsnæðisöryggi og stefnda. Hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að hann hafi fullnægt þessari skyldu sinni á viðhlítandi hátt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert