Best að ástunda hið jákvæða

Geir R. Tómasson er við góða heilsu þó heyrnin sé …
Geir R. Tómasson er við góða heilsu þó heyrnin sé aðeins farin að gefa sig og lýsir sér sem öldruðum unglingi. Hann segist ávallt hafa reynt að líta lífið jákvæðum augum og mun bjóða 150 manns til stórveislu í kvöld. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Geir R. Tómasson tannlæknir fagnar 100 ára afmæli sínu í dag. Geir fæddist 24. júní 1916 að Miðhúsum í Hvolhreppi. Hálfs árs gamall fór hann síðan til Reykjavíkur þar sem hann býr nú ásamt eiginkonu sinni, Maríu Elfriede Tómasson, sem verður 95 ára í júlí en þau hafa verið gift í 73 ár og eiga þrjá syni.

Þau hjónin kynntust í Þýskalandi þar sem Geir var við nám í tannlækningum frá 1937–1943. Honum var vel tekið af Þjóðverjunum sem oft voru hissa á því hvað Íslendingurinn ungi var frakkur og talaði frjálslega við virðulega menn. Í Þýskalandi kynntist hann mörgu áhugaverðu fólki, m.a. rithöfundunum Gunnari Gunnarssyni og Jóni Sveinssyni. Þar var einnig Helgi Briem, sendiherra Íslands í Þýskalandi, sem hjálpaði honum að koma bréfum heim. „Ég hef alltaf haft gott fólk til að hjálpa mér. Það var svolítið flókið að koma skilaboðum heim því nasistar fylgdust með öllu,“ segir Geir.

Ævintýralegt ferðalag

Eftir að Geir lauk námi 1943 fékk hann stöðu héraðstannlæknis í norðurhluta Svíþjóðar en það var þrautin þyngri að komast út úr hinu stríðshrjáða Þýskalandi. „Við fórum til Berlínar að hitta greifann von Rosen sem þá vann í sendiráði Svía og ætlaði að fylgja okkur til Svíþjóðar. Um nóttina var mikil loftárás og við biðum í hótelkjallaranum og bjuggumst við því á hverri stundu að fá bomburnar yfir okkur en ein sprengja lenti í garðinum við hliðina á húsinu og rótaði þar öllu upp. Þegar við komumst á brautarstöðina til að taka lestina til Kaupmannahafnar var þar múgur og margmenni og allir að reyna að troða sér inn í lestina. Ég gat fengið einn glugga á lestarvagninum opnaðan og lyfti töskunni og konunni upp um hann. Sjálfur varð ég síðan að skríða í gegnum gluggann til þeirra. Lestin var síðan stoppuð á leiðinni vegna loftárásar og þá voru öll ljós slökkt og við biðum þar til henni lauk. Loksins komumst við til Kaupmannahafnar og gátum tekið ferju yfir til Svíþjóðar.“

Heldur stóra afmælisveislu

Geir var nokkur ár í Svíþjóð en hélt síðan heim þar sem hann vann alla tíð við tannlækningar á sinni eigin stofu í Reykjavík. Hann hefur alltaf ferðast mikið og farið reglulega til Þýskalands, enda bjó tengdafjölskylda hans þar. Í tilefni afmælisins hyggst hann halda stórveislu í Frímúrarahöllinni í kvöld.

Heppnir að vinna Austurríki

Geir er mikill áhugamaður um fótbolta. Sem ungur maður spilaði hann með Víkingi sem þá var nýstofnað lið. Uppáhaldsminning hans úr boltanum er þegar hann skoraði sigurmarkið gegn KR í úrslitaleik þriðju deildar. Sonur hans Elmar Geirsson varð síðan landsliðsmaður í fótbolta og spilaði með Fram og KA í íslensku deildinni og Hertha Zehlendorf og Eintracht Trier í Þýskalandi.

Geir hefur horft á alla leiki íslenska landsliðsins á EM og er afar ánægður með frammistöðu liðsins. Hann telur það þó fyrst og fremst hafa verið heppni sem réð því að Íslendingar unnu leikinn gegn Austurríkismönnum þar sem Austurríkismenn hafi haft tögl og hagldir í leiknum í seinni hálfleiknum. Hann ætlar þó eins og flestir Íslendingar að fylgjast með næsta leik liðsins á mánudaginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert