Gaf börnunum frelsi til að vera þau sjálf

Stefán var deildarstjóri á skeljadeild.
Stefán var deildarstjóri á skeljadeild. Af heimasíðu Miðborgar

Foreldrar leikskólabarna sem misstu kennarann sinn þegar hann varð bráðkvaddur fyrr í mánuðinum hafa nú hafið söfnun til þess að koma fyrir minnisvarða um hann á lóð skólans. „Hann var alveg frábær einstaklingur sem vann mikið með tónlist og sköpun,“ segir Álfheiður Björgvinsdóttir um hinn 32 ára gamla Stefán Valmundsson sem lést 3. júní síðastliðinn.

Stefán var deildarstjóri á skeljadeild á leikskólanum Miðborg en að sögn Álfheiðar vildu hún og foreldrar fleiri barna á skeljadeild gera eitthvað í minningu Stefáns og halda heiðri hans á lofti.

„Hann vann mikið með tónlist og sköpun og gaf börnunum svo mikið frelsi til að vera þau sjálf,“ segir Álfheiður. „Hann var rólegur og hlýr og góður og það er mikill missir að honum. Þegar maður missir svona fattar maður hvað hann skipti miklu máli.“

Foreldrarnir hafa ákveðið að koma fyrir einhvers konar útihljóðfæri á lóð leikskólans Lindarborgar sem er hluti af Miðborg. Eins og fyrr segir var Stefán deildarstjóri á skeljadeild en þá sá hann líka um kórastarf í öllum leikskólanum. „Okkur langar að gera minnisvarða um Stefán sem felur í sér einhvers konar hljóðfæri og með því halda hans starfi á lofti,“ segir Álfheiður.

Hún segir mikilvægt að minnismerkið verði í anda Stefáns og að með því geti krakkarnir haldið áfram að læra um tónlist. Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á 0515-14-404715, kt: 440495-2499 sem er reikningur Foreldrafélags Lindarborgar.

„Við ætlum bara að sjá hvað við náum  miklu, það hefur ekki verið ákveðið hvað verður gert nákvæmlega. En ef það er einhver aukaágóði fer hann til Hjartaverndar,“ segir Álfheiður.

Hér má sjá heimasíðu söfnunarinnar.

„Hann vann mikið með tónlist og sköpun og gaf börnunum …
„Hann vann mikið með tónlist og sköpun og gaf börnunum svo mikið frelsi til að vera þau sjálf,“ segir Álfheiður. Af heimasíðu söfnunarinnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert