Engin grein skapar meiri tekjur

Strokkur er alltaf áskorun fyrir snögga ljósmyndara. Fleiri myndir eftir …
Strokkur er alltaf áskorun fyrir snögga ljósmyndara. Fleiri myndir eftir Ómar Óskarsson má sjá í myndaþætti Sunnudagsblaðsins. Ómar Óskarsson

Ríflega 10 prósent starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði, eða um 22 þúsund manns, vinna í ferðaþjónustu, samkvæmt nýlegri könnun Stjórnstöðvar ferðamála. Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað gífurlega undanfarin ár og stefnir allt í að sumarið 2016 muni slá öll met rétt eins og hefur verið reglan að undanförnu. Ferðaþjónustan sem atvinnugrein vex samhliða þessu sem og þær fjárhæðir sem skila sér í þjóðarbúið úr vösum ferðamanna. Kortavelta ferðamanna jókst um 51% í maímánuði í ár miðað við maí í fyrra, svo dæmi sé tekið, og skattskyld velta stóreykst með breytingum á virðisaukaskattskerfinu um áramót. Má þar nefna fimm milljarða aukningu á virðisaukaskattskyldri veltu í flokki farþegaflutninga og fjóra milljarða í flokki hótela og gistiheimila milli ára, samkvæmt tölum frá ríkisskattstjóra. Í fyrra voru erlendir ferðamenn alls rúmlega 1,2 milljónir talsins samkvæmt Ferðamálastofu.

„Þessi mikla fjölgun ferðamanna þýðir að ferðaþjónustan er orðin heils árs atvinnugrein, burðug atvinnugrein og ein af undirstöðunum í íslensku efnahagslífi. Hún er orðin þriðja stoðin og reyndar farin að skapa meiri gjaldeyristekjur en hinar tvær sem sögulega hafa verið stærstar,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í samtali við Sunnudagsblaðið.

Ragnheiður fagnar nýsköpun í ferðaþjónustu og telur grettistaki hafa verið …
Ragnheiður fagnar nýsköpun í ferðaþjónustu og telur grettistaki hafa verið lyft á kjörtímabilinu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hún fagnar nýsköpun í greininni og telur grettistaki hafa verið lyft á kjörtímabilinu. Mikil vinna hafi átt sér stað að undanförnu við að koma ólíkum aðilum að sama borði og móta stefnu í ferðamálum. Of mikil orka hafi farið í umræður um gjaldtöku á ferðamannastöðum á sínum tíma – í stóra samhenginu sé ávinningur af slíkri gjaldtöku brotabrot af því sem þegar skilar sér í þjóðarbúið.

Gullgrafaraæði í ferðamennsku

Ekki er einungis um fjölgun að ræða heldur hefur samsetning þeirra ferðamanna sem sækir okkur heim breyst. Þetta segir Rannveig Ólafsdóttir, prófessor í ferðamálafræði. Með aukinni uppbyggingu til að mæta sívaxandi fjölda ferðamanna eykst hlutfall svokallaðra fjöldaferðamanna sem hafa mun meiri áhrif bæði á menningu og náttúru þeirra landa sem þeir heimsækja. Rannveig harmar því að heildrænt skipulag á nýtingu lands fyrir uppbyggingu ferðamennsku hafi ekki litið dagsins ljós og óttast afleiðingar þess að ferðamaðurinn stjórni því hvar uppbygging eigi sér stað, en ekki þeir sem í landinu búa. Viðbrögð hafi hingað til verið fálmkennd og einkennst af fyrstu hjálp frekar en skipulögðum fyrirbyggjandi aðgerðum. 

„[...] Það virðist ríkja ákveðið gullgrafaraæði í kringum ferðamennskuna í dag, og að það vanti alla skipulagningu og stjórnun,“ segir hún. Þannig sé einni helstu auðlind landsins í geiranum stefnt í hættu, það er ósnortinni náttúru og víðerni.

Aðilar sem starfa í ferðaþjónustunni fagna vitanlega ferðamannastraumnum að sögn Gríms Sæmundsen, formanns Samtaka ferðaþjónustunnar. Greinin er sögð hafa allt að því „útrýmt“ atvinnuleysi í landinu, segir hann. Félagslegum og náttúrulegum þolmörkum sé á hinn bóginn næstum náð, sérstaklega á mestu annatímum, og bersýnilega sé ekki nóg að gert til að taka á móti auknum fjölda. Ekki sé samt sem áður um neyðarástand að ræða og mun meiri fjöldi geti sótt okkur heim sé álaginu rétt stýrt.

Nánar er rætt við þau Ragnheiði Elínu, Rannveigu og Grím í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Sumir stríða örlögunum í Reynisfjörunni. Allt eftirlit er víðs fjarri.
Sumir stríða örlögunum í Reynisfjörunni. Allt eftirlit er víðs fjarri. Ómar Óskarsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert