Í brúðarkjól á kjörstað

Þau Heiðdís Haukdal Reynisdóttir og Sigurður Már Hannesson gengu í það heilaga í dag en það var þeirra fyrsta verk sem hjón að kjósa til forseta. Brúðhjónin stukku beint upp í brúðarbíl að athöfn lokinni í Grensáskirkju og þeim ekið á kjörstað Hlíðaskóla.

„Við vorum að reyna að finna tíma, hvenær við ættum að kjósa, síðan fannst okkur þetta bara rosa fyndið að gera þetta bara þarna,“ segir Heiðdís um hvernig það kom til að ákveðið var að greiða atkvæði nýgift og prúðbúin á brúðkaupsdaginn.

Heiðdís var ekki búin að gera upp hug sinn þegar mbl.is náði tali af henni í gær en Sigurður Már var þegar búinn að velja sér frambjóðanda sem hann hugðist styðja.

„Nei, ég efast um það,“ sagði Heiðdís létt í bragði, aðspurð hvort hún teldi það hafa áhrif á hjónabandið væru þau ósammála um forsetaefni.

Þau eiga von á mögum gestum í veislu sína í Framheimilinu og eru afar kát með daginn sem þau hafa beðið með eftirvæntingu. mbl.is óskar brúðhjónunum innilega til hamingju með daginn.

Hægt er að fletta myndunum hér að ofan og sjá ferðalag hinna nýgiftu hjóna inn í kjörklefana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert