Dæmd í fangelsi fyrir 77 afbrot

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Karlmaður um þrítugt og kona um fertugt voru í dag dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir fjölmörg hegningarlaga- og umferðalagabrot. Um er að ræða samtals 77 brot sem framin voru frá því í desember 2014 til mars á þessu ári.

Afbrotin eru ýmiskonar, en meðal annars fór fólkið eitt eða í sameiningu inn í bíla og stal þaðan verðmætum, notfærði sér viðskiptakort í heimildarleysi, tók út vörur í tuttugu skipti fyrir um 2 milljónir í reikning sem ekki var heimild fyrir, tugi umferðalagabrota, stuld á skartgripum, innbrot í skíðaskála, fjölda fíkniefnabrota og tilraunar til fjársvika.

Þá pantaði karlmaðurinn í desember árið 2014 bílaleigubíl að Sjávarútvegsráðuneytinu og sagðist vera starfsmaður þess. Tók hann á móti bifreiðinni fyrir utan ráðuneytið og kvittaði undir og fannst bifreiðin síðar sama dag í Hafnarfirði.

Karlmaðurinn, Arnar Ingi Jónsson, er í dómnum sagður eiga að baki sakaferil. Meðal annars var hann dæmdur í Hæstarétti í 10 mánaða fangelsi í október árið 2014 og tveggja mánaða fangelsi í desember 2015. Í dómnum nú er sagt að með hliðsjón af sakaferli Arnars þyki ekki unnt að skilorðsbinda refsinguna. Var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi.

Konan, Dagný Ósk Arnardóttir, á einnig að baki sakaferil, en á þessu ári hefur hún tvívegis gengist undir sáttir vegna umferðalagabrota. Með hliðsjón af sakaferli hennar þótti rétt að skilorðsbinda refsingu hennar, en hún var dæmd í 14 mánaða fangelsi.

Bæði voru svipt ökuréttindum, Arnar ævilangt en Dagný í 2 ár.

Játuðu bæði skýlaust brot sín fyrir dómi. Arnar þarf að greiða 1,9 milljón í sakarkostnað og Dagný Ósk 1,3 milljónir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert