Framleiða allan sólarhringinn

Það er fátt betra en að fagna þeim bláu íklæddur …
Það er fátt betra en að fagna þeim bláu íklæddur þeirri bláu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áhugi heimsbyggðarinnar á Íslandi og íslenska knattspyrnulandsliðinu hefur farið vaxandi með hverjum leik landsliðsins á EM í Frakklandi.

Stuðningsmönnum landsliðsins fjölgar frá degi til dags og er áhuginn nú orðinn svo mikill að Errea, ítalski íþróttavöruframleiðandinn sem framleiðir treyjur landsliðsins, hefur ekki undan í framleiðslunni til sjá öllum nýju stuðningsmönnum landsliðsins fyrir treyjum. Og það þrátt fyrir að unnið sé á vöktum allan sólarhringinn til að framleiða sem mest af treyjunni.

Þorvaldur Ólafsson, framkvæmdastjóri Sport Company ehf. sem er með Errea umboðið á Íslandi, staðfestir þennan mikla áhuga í samtali við mbl.is. „Það eru tvær sjónvarpsstöðvar hjá Errea á Ítalíu í dag. Þeir vildu vita meira um búningana, liðið og framleiðsluna,” segir Þorvaldur.

Þorvaldur Ólafsson, framkvæmdastjóri Sport Company ehf. (t.v.), merkir treyju Gylfa …
Þorvaldur Ólafsson, framkvæmdastjóri Sport Company ehf. (t.v.), merkir treyju Gylfa Sigurðssonar. mbl.is/Þórður Arnar

Hann var sjálfur í viðtali hjá Bloomberg á dögunum og fékk póst í morgun þar sem hann var spurður hvenær Errea á Íslandi kæmi til Parísar fyrir leik Íslands á sunnudaginn. Hvers vegna? Jú, það bíða fjórar þýskar sjónvarpsstöðvar eftir að Errea á Íslandi fljúgi með búningana út.

Spurður hversu margar treyjur hafi selst frá því að þær komu fyrst á markað segist Þorvaldur ekki vilja gefa það upp strax. Í samtali við Bloomberg fréttastofuna sagði hann aftur á móti að áætlað hefði verið að eftirspurnin eftir treyjunum yrði þrefaldur sætafjöldi Laugardalsvallar, eða vel á 30 þúsund treyjur.

Hann segir að verið sé að framleiða treyjur á fullu og að stór sending sé væntanleg til Ítalíu frá Rúmeníu, þar sem treyjurnar eru framleiddar, eftir helgi. Nokkur þúsund treyjur munu skila sér hingað til lands. „Það er mjög mikið búið að fara af treyjum, bæði til Íslands og til annarra landa, það núna er unnið 24/7 í Rúmeníu þar sem verksmiðjan er,“ segir Þorvaldur.

Treyjur leikmannanna undir öruggum kodda

Í morgun bárust þær fréttir að treyjusendingin sem var væntanleg til landsins í dag hefði farið úrskeiðis á leiðinni hingað til lands frá Evrópu. Mistökin liggja hjá flutningsaðilanum og segist Þorvaldur vera í miklu áfalli vegna þess. Unnið er hörðum höndum með flutningsaðilanum að því að koma treyjunum hratt og örugglega hingað til lands.

„Við erum hrikalega leið yfir þessu og í miklu áfalli,“ segir Þorvaldur en mikið álag hefur verið hjá Errea á Íslandi síðustu daga. Símkerfið brann bókstaflega yfir hjá fyrirtækinu í gær. „Það er verið að setja upp nýja símastöð hjá okkur,“ segir Þorvaldur.

Spurður hvort treyjur landsliðsmanna Íslands hafi verið í sendingunni sem seinkaði vegna mistaka við flutning kveður Þorvaldur nei við. „Treyjurnar eru öruggar. Ég sef á þeim,“ segir Þorvaldur. Hann hefur farið út með treyjurnar í handfarangri fyrir alla leiki Íslands á EM til þessa. Til stóð að hann færi með þær út fyrir leikinn gegn Frökkum en vegna sendingarinnar sem klikkaði gæti hann þurft að finna staðgengil fyrir sig í þetta skipti, þó það sé enn óákveðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert