Níu styrkir veittir

Styrkþegar ÞÚ GETUR! 2016.
Styrkþegar ÞÚ GETUR! 2016. Ljósmynd/Aðsend

Í dag fór fram afhending námsstyrkja og hvatningaverðlauna ÞÚ GETUR! fyrir árið 2016, en ÞÚ GETUR! er forvarna- og fræðslusjóður sem hefur það markmið að vekja athygli á mikilvægi góðrar geðheilsu, vinna gegn fordómum og styrkja þá sem átt hafa við geðræn veikindi að stríða til náms.

Alls veitir sjóðurinn níu styrki og eru þeir veittir í samráði við endurhæfingaraðila og nýtast í skólagjöld, skólabækur, tölvur og annað sem þarf til að ljúka mikilvægum áföngum í námi. Fjármagn sjóðsins byggist á innkomu af styrktartónleikum þar sem helstu tónlistarmenn landsins gefa vinnu sína, sölu Frelsismensins og beinum framlögum fjölda einstaklinga og fyrirtækja.

Hvatningarverðlaun ársins 2016 hlaut Janus endurhæfing fyrir faglega geðendurhæfingu, eflingu geðheilsu og nýsköpun í þjónustu við þá sem átt hafa við alvarleg geðræn veikindi að stríða.

Ólafur Þór Ævarsson, stjórnarformaður sjóðsins, sagði við afhendinguna: „Öll verk fyrir ÞÚ GETUR! eru unnin í sjálfboðastarfi. Við viljum þakka öllum sem hafa lagt hönd á plóg undanfarinn áratug kærlega fyrir óeigingjarnt og mikilvægt starf. Með því starfi hefur verið unnt að veita á annað hundrað einstaklingum styrk frá ÞÚ GETUR! Það er stórkostlegt að fylgjast með dugnaði þessara einstaklinga og fá að sjá hve miklum árangri þeir ná.“

Þeim sem vilja styrkja starf sjóðsins er bent á söfnunarreikning Forvarna- og fræðslusjóðsins ÞÚ GETUR! 0336-26-1300 og kt. 621008-0990.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert