Eldur í Borgarvirki

Einn af hápunktum Elds í Húnaþingi eru tónleikar í Borgarvirki …
Einn af hápunktum Elds í Húnaþingi eru tónleikar í Borgarvirki sem verða í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einn af stærri viðburðum á bæjarhátíðinni Eldur í Húnaþingi nú um helgina eru tónleikar með Sigríði Thorlacius í Borgarvirki sem verða í kvöld. Hin sérstæða klettaborg í Vesturhópi þykir frábær tónleikastaður og hljómburður þar eins og best gerist.

„Ljósið er þema hátíðarinnar að þessu sinni,“ segir Sólrún Guðfinna Rafnsdóttir en þau Mikael Þór Björnsson eiginmaður hennar eru framkvæmdastjórar þessarar bæjargleði. „Við hvetjum fólk til þess að setja upp fallegar ljósaskreytingar við heimili sín; útikerti, seríur, kyndla og annað. Slíkt myndi setja fallegan svip á sumarkvöldið nú þegar aðeins er farið að húma.“

Opnunarhátíð Elds í Húnaþingi var á fimmtudag og rekur hver atburðurinn annan. Tónleikarnir í Borgarvirki eru í kvöld og á morgun er fjölskyldudagur á Hvammstanga. Um kvöldið er dansleikur í félagsheimilinu með No More Drama og tónleikar með Jónasi Sig. og ritvélum framtíðarinnar.

„Hátíð eins og þessi verður ekki haldin nema margir leggist á eitt. Við sem erum í forsvari höfum góða undirbúningsnefnd að baki okkur og íbúar hér á svæðinu leggja sitt af mörkum. Þá styrkja ýmis fyrirtæki hér og þar á landinu okkur mjög myndarlega og þannig er hægt að hafa þessa hátíð nokkuð veglega,“ segir Sólrún.

Sólrún Guðfinna Rafnsdóttir og Mikael Þór Björnsson eru framkvæmdastjórar bæjarhátíðarinnar.
Sólrún Guðfinna Rafnsdóttir og Mikael Þór Björnsson eru framkvæmdastjórar bæjarhátíðarinnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert