Mættu sérsveitinni í rúllustiga

Kolbrún Nadira Árnadóttir
Kolbrún Nadira Árnadóttir Ljósmynd/Úr einkasafni

Kolbrún Nadira Árnadóttir er í München ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum. Voru þau stödd á Karlplatz, þangað sem talið var að árásarmennirnir hefðu flúið eftir árásina í verslunarmiðstöðinni, en leituðu skjóls á hóteli í borginni, þar sem þau eru enn. Í samtali við RÚV lýsir hún því hvernig skelfing braust út á lestarstöðinni við Karlplatz.

„Við vorum þar sem seinni árásin átti að hafa gerst en það var víst ekki árás, það greip bara um sig panikk á þeirri lestarstöð. Við vorum bara á leiðinni niður rúllustigann þegar allt í einu var sérsveitin bara þarna og allir öskruðu og hlupu eins og fætur toguðu. Við hlupum bara með fólkinu og allir öskrandi og börnin okkar grátandi. Við hlupum og þurftum að henda okkur í götuna. Þetta var bara hræðilegt, bara skelfing.“

Í samtali við mbl.is segir Kolbrún þau óhult á hótelinu núna, en mikil skelfing hafi gripið um sig á Karlplatz. Segir hún lögreglu vera úti um allt og hefur ekki séð til annarra en löggæslumanna á götum úti, en þeim er meinað að fara út.

Að sögn Kolbrúnar var ástandið erfitt þegar skelfingin braust út, en börn hennar og eiginkonu hennar eru ung; þrettán ára, tæplega sex ára og tæplega tveggja ára. Sá yngsti hafi þó ekki verið hræddur, enda ekki skilið hvað væri að gerast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert