Ragnheiður Sara fremst Íslendinga

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er í fjórða sæti að loknum öðrum …
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er í fjórða sæti að loknum öðrum keppnisdegi. mynd/Víkurfréttir-Páll Ketilsson

Að loknum öðrum keppnisdegi á heimsleikunum í crossfit er Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir efst íslenskra kvenna í fjórða sæti. Henni fast á hæla kemur Annie Mist Þórisdóttir í fimmta sæti en að loknum fyrsta keppnisdegi var Annie fyrst kvenna. Annie hafnaði í 23. sæti í sjósundinu í gær, sem var eina keppnisgrein gærdagsins í einstaklingskeppninni, og féll við það niður í fimmta sætið.

Ragnheiði gekk aftur á móti betur en Annie og varð fjórða í sundinu og tryggði sér með því fjórða sætið í heildarkeppninni. Katrín Tanja fór upp um eitt sæti frá fyrsta keppnisdegi og er sem stendur í 10. sæti en hún var ellefta í sundinu. Þuríður Erla var átjánda í sundinu og er í nítjánda sæti heildarkeppninnar að öðrum keppnisdegi loknum.

Hilmar og Haraldur hættir

Björgvin Karl Guðmundsson var sautjándi í sundinu og fór við það upp úr sjöunda sæti í það fimmta. Haraldur Holgersson lauk keppni í unglingaflokki í gær þar sem hann hafnaði í 8. sæti, jafn að stigum við Axel Lundgren, næsta mann fyrir ofan. Hilmar Þór Harðarson lauk einnig keppni í mastersflokki 55-59 ára í gær þar sem hann hafnaði í 18. sæti. Hilmar lauk keppni með stakri prýði þrátt fyrir bakmeiðsli sem háðu honum í keppninni og getur skilið sáttur við. 

Hilmar lauk keppni með glæsibrag þrátt fyrir meiðsli.
Hilmar lauk keppni með glæsibrag þrátt fyrir meiðsli. Ljósmynd/Berglind Sigmunds

Það var Nicholas Paladino sem bar sigur úr býtum í unglingaflokki drengja 16-17 ára en í mastersflokki 55-59 ára karla var það Will Powel sem sigraði. Fremst í kvennaflokki að loknum öðrum keppnisdegi er hin ástralska Tia-Clair Toomey og í karlaflokki er það Bandaríkjamaðurinn Mathew Fraser sem leiðir. 

Lið CrossFit XY er sem stendur í 35. sæti í heildarkeppni eftir að hafna í 37. sæti í einu þraut gærdagsins sem einnig var sjósund. Fremst í liðakeppninni er lið CrossFit Myhem frá Bandaríkjunum.

Haraldur hafnaði í áttunda sæti í unglingaflokki 16-17 ára.
Haraldur hafnaði í áttunda sæti í unglingaflokki 16-17 ára. Ljósmynd/Berglind Sigmunds

Þrjár greinar í einstaklingskeppni í dag

Keppni heldur áfram í einstaklings- og liðakeppni í dag. Fyrsta grein dagsins er svokallað „murph“ þar sem keppendur þurfa að hlaupa og gera ýmsar æfingar í þyngingarvesti en það var í sömu grein sem Annie Mist þurfti að hætta keppni í fyrra. Það eru konurnar sem hefja leik klukkan 14:00 að íslenskum tíma og þá karlarnir 15:00 í sömu grein. 

Tvær greinar til viðbótar eru á dagskrá í einstaklingskeppni í dag og hefst fyrri greinin, „Squat Clean Pyramid“, klukkan 22:35 í kvöld. Ekki hefur verið greint frá hver þriðja og síðasta þraut dagsins í einstaklingskeppni verður, en hún hefst samkvæmt dagskrá klukkan rúmlega eitt í nótt að íslenskum tíma.

Þá eru tvær greinar á dagskrá liðakeppninnar í dag milli klukkan 17:30 og 21:00 að íslenskum tíma þar sem keppt verður í þriggja manna réttstöðulyftu og svokölluðum klifurormi.

Keppt var í 500 metra sjósundi í einstaklings- og liðakeppni …
Keppt var í 500 metra sjósundi í einstaklings- og liðakeppni í gær. Mynd/CrossFit Games
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert