Í hamingjuríku sambandi með Múmínálfunum

Sumarbollinn 2016 er nýjasti gropur Múmínsafns Huldu Hvannar og er …
Sumarbollinn 2016 er nýjasti gropur Múmínsafns Huldu Hvannar og er hann í miklu uppáhaldi. mbl.is/Árni Sæberg

Alþjóðlega Múmínsafnið í Finnlandi er besti staður á jarðríki, að minnsta kosti að mati Huldu Hvannar Kristinsdóttur, sem er líklega óhætt að titla sem einn öflugasta múmínsafnara landsins. Í safninu hennar má ekki bara finna bolla, skálar og strigaskó, heldur lét hún einnig húðflúra sjálfan Múmínsnáðann á sig.

Hulda gerðist múmínsafnari fyrir um það bil sex árum, eftir sína fyrstu heimsókn til Finnlands, heimalands Múmínálfanna. „Ég fór tvisvar til Finnlands árið 2010. Þetta er eitt fallegasta land sem ég hef komið til, fullt af trjám og litlum vötnum,“ segir Hulda, sem varð fljótlega vör við múmínálfana í sinni fyrstu heimsókn. „Finnar eru mjög stoltir af sinni múmínarfleifð. Ég á vin sem býr þar og hann fór með mig á alþjóðlega Múmínsafnið. Þar kviknaði ástin sem hefur ekki slökknað síðan,“ segir Hulda, og á þá við ást sína á Múmínálfunum.

Sex árum, fimm Finnlandsferðum og tveimur heimsóknum síðar á alþjóðlega Múmínsafnið í Tampere hefur Hulda komið sér upp myndarlegu safni með ýmsum múmínvörum. „Þetta byrjaði með bollunum eins og hjá svo mörgum. Elsti bollinn er um 15 ára gamall, mamma keypti hann í Helsinki á sínum tíma.“ Hulda fjárfesti í fyrstu bollunum sínum í fyrstu Finnlandsferðinni. „Fyrst ég átti bollana langaði mig svolítið í diskana og þegar ég átti diskana langaði mig í skálarnar. Síðan vatt þetta upp á sig og allt í einu átti ég sex bolla, diska, skálar og eldfast mót. Og fyrst ég átti eldhúsdótið gat ég alveg farið að safna einhverju öðru. Ég tók enga meðvitaða ákvörðun um að safna múmínhlutum, allt í einu átti ég þetta allt saman.“

Besti staður á jarðríki

Flesta munina hefur Hulda fengið að gjöf. „Þegar fólk frétti af því að ég væri að safna þá var eins og því létti því þá er auðvelt að finna gjafir handa manni. Ég hef ótrúlega gaman af því hvað fólk er búið að vera duglegt að hjálpa mér að bæta í safnið mitt, sem er orðið ágætlega myndarlegt vil ég meina.“

Múmínálfarnir hafa fyrir löngu fest sig í sessi Íslendinga og líkt og flestir vita eru persónurnar sköpunarverk finnska rithöfundarins Tove Jansson og komu fyrst fram á sjónarsviðið fyrir um það bil 70 árum í barnabókum. Á alþjóðlega Múmínsafninu í Finnlandi má finna ýmsan fróðleik um Tove og Múmínálfana, sem Hulda hefur kynnt sér vel. „Múmínsafnið er besti staður á jarðríki. Það má því miður ekki taka myndir þar inni og ég get því miður ekki sýnt fram á að ég hafi komið þangað, en fólk verður bara að taka mig trúanlega. Þar er að finna ótrúlega margar upprunalegar teikningar frá Tove, ásamt líkani, nánast í fullri stærð, af Múmínhúsinu sem Tove bjó til sjálf og er innréttað eins og Múmínhúsið í sögunum.“

Hulda gaf sér mímínhúðflúr í 22 ára afmælisgjöf.
Hulda gaf sér mímínhúðflúr í 22 ára afmælisgjöf. mbl.is/Árni Sæberg

Persónur með galla sem mynda góðan hóp

Hulda hefur kynnt sér sögurnar og er á þeirri skoðun, líkt og fleiri, að ekki sé um barnabækur að ræða. „Ég er með þá kenningu að hver einasti karakter sé holdgervingur ákveðins galla hjá mannkyninu. Snabbi er rosalega gráðugur, Múmínsnáðinn er mjög trúgjarn, Múmínmamma er gleymin eða jafnvel glámskyggn, Pjakkur er hrekkjalómur og Mía litla er alltaf reið. Karaktereinkenni þeirra eru öll rosalega neikvæð ef maður pælir í því en saman mynda þau heildstæðan og góðan hóp sem virkar.“ Hulda segir óneitanlega vera að finna ákveðinn drunga yfir sögunum. „Kannski vegna þess að Finnar eru þekktir fyrir að vera þungir á brún og jafnvel þunglyndir, en þegar maður kynnist þeim eru þeir hlýir, hjartagóðir og gestrisnir. Það er eins og Tove hafi tekið það sem henni finnst athugavert við Finna eða jafnvel mannkynið allt en samt tekst henni að gera þá að góðum karakterum.“ Hulda hefur kynnst fjölmörgum öðrum múmínsöfnurum í gegnum safnið sitt og segir að oftar en ekki verði til mjög heimspekilegar umræður um múmínheiminn. „Fólk er með mjög flóknar aðdáendakenningar um duldar merkingar og fleira. Það er mikil heimspeki þarna á bak við. Múmínaðdáendur má finna á öllum stigum samfélagsins.“

Múmínföt fyrir fullorðna

Að sögn Huldu er hún ekki mikill safnari í eðli sínu. „Ég hef aldrei safnað neinu áður, ég reyndi þegar ég var krakki að safna servíettum, frímerkjum og límmiðum en það entist ekki. Þetta er eitthvað öðruvísi. Þetta eru hlutir sem ég get notað marga hverja dags daglega, eins og skóna mína og bollana. Ég veit að sumir bollanna eru hættir í framleiðslu og þeir ganga kaupum og sölum fyrir tugi þúsunda. En þetta er bara bolli þegar allt kemur til alls, þetta er ekki svo heilagt að það megi ekki drekka úr honum.“ Spurð um uppáhaldshluti er Hulda fljót að nefna nýja sumarbollann. „En svo finnst mér ótrúlega gaman að það séu til múmínföt fyrir fullorðna, það er einn af stóru plúsunum í mínu lífi. Ég kíki mjög reglulega í Finnsku búðina og keypti skóna til að mynda þar og þeir eru mikið notaðir.“ Á múmínóskalistanum þessa stundina hjá Huldu er hraðsuðuketill og lampi. „Þetta er dýrt hobbý, maður þarf að vera svolítið þolinmóður.“

Farsælt múmínsamband

Hulda reynir að deila múmínáhuganum með fjölskyldu og vinum. „Ég er dugleg að gefa múmínvörur sjálf, jafnvel þótt fólk sé ekki að safna, mér finnst þetta frábær gjöf og er alltaf að reyna að troða öllum inn í múmínheiminn. Ég held að það sé enginn sem hafi farið í fýlu og fundist hann svikinn vegna þess að hann fékk múmínbolla.“ Dóttir Huldu er þar engin undantekning. „Ég treð henni í alla múmínlínuna frá Lindex. Hún á fullt af múmínfötum og dóti og er heilaþvegin frá blautu barnsbeini,“ segir hún og hlær.

Segja má að múmínáhuginn hafi náð nýjum hæðum í febrúar, þegar Hulda hélt upp á 22 ára afmælið sitt. „Mig langaði svo að gefa sjálfri mér afmælisgjöf og hafði samband við Íslenzku húðflúrstofuna og fékk að koma þremur dögum seinna, því ég vildi vera sæt í afmælisveislunni minni.“ Hulda var með tvö húðflúr fyrir og segir að það hafi verið lítið mál að bæta einu við. „Við múmínálfarnir erum búin að eiga í hamingjuríku sambandi síðastliðin ár.“ Múmínsnáðinn varð fyrir valinu og er húðflúrið á handlegg Huldu. „Fólk tekur almennt vel í þetta, ungir jafnt sem aldnir.“ Hulda reiknar með að múmínsafnið komi til með að stækka í framtíðinni og á þá bæði við hluti og húðflúr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert