Lítill munur á Katrínu og Ragnheiði

Ljósmynd/Berglind Sigmundsdóttir

Katrín Tanja Davíðsdóttir er í öðru sæti á heimsleikunum í crossfit í Kaliforníu eftir keppni næturinnar. Hún tók fram úr Ragnheiði Söru Sigmundsdóttur en þó munar einungis fjórum stigum á þeim.

Katrín Tanja er með 714 stig en Ragnheiður Sara 710 stig.

Er því ljóst að mikil spenna er þeirra á milli fyrir lokaþrautirnar í kvöld.

Tia-Claire Toomey situr í toppsætinu með 722 stig. Hún var í öðru sæti á heimsleikunum í fyrra. Samantha Briggs, sem hefði forystu fyrir keppni gærdagsins, féll niður í fjórða sætið.

Annie Mist Þórisdóttir er í ellefta sæti eftir þrautir næturinnar, með 552 stig, og Þuríður Erla Helgadóttir í sautjánda sæti.

Björgvin Karl Guðmundsson er á góðri siglingu í karlaflokki en hann komst upp í sjötta sætið í nótt, með 570 stig.

Keppt var í þremur þrautum í einstaklingskeppni karla og kvenna í nótt: „Climbing Snail“, „The Seperator“ og „100%“, en hér er hægt að lesa sér til um þær.

Ljósmynd/Berglind Sigmundsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert