Lítil hugmynd orðin risastór

Dúkkan Lúlla, sem frumkvöðullinn Eyrún Eggertsdóttir hannaði og bjó til, gengur nú kaupum og sölum á Ebay og fleiri uppboðssíðum á allt að 40 þúsund krónur. Dúkkan kostar 70 dollara út úr búð eða um 8.500 krónur.

Lúlla fékk gulleggið árið 2011 og þessi litla hugmynd er orðin risastór úti í hinum stóra heimi. „Sendingin sem við bjuggum til núna er þegar uppseld og fer ekki í búðarhillur,“ segir Eyrún en undanfarna daga hefur hún unnið myrkranna á milli enda rignir fyrirspurnum hreinlega yfir hana. Hún ætlaði að vera í sumarfríi með börnunum sínum en vegna vinsælda Lúllu munu börnin fara ein í sveitina með ömmu og afa.

Eyrún Eggertsdóttir fékk hugmyndina að dúkkunni árið 2011 og hefur …
Eyrún Eggertsdóttir fékk hugmyndina að dúkkunni árið 2011 og hefur hún fengið byr í seglin að undan- förnu. Dúkkan hennar er uppseld og er næsta sending væntanleg í september en hægt er að bjóða í dúkkuna á Ebay. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Eyrún stofnaði fyrirtækið RóRó árið 2011 og hefur síðan þá þróað dúkkuna, sem er úr bómull, með ofnæmisprófaða fyllingu inni í sér og tæki sem spilar upptöku af andardrætti og hjartslætti. Hún dregur jafnvel lykt af foreldrunum í sig og líkir þannig eftir nærveru foreldranna.

Þegar uppseld

„Þegar ég lagði af stað í þetta ferðalag langaði mig að þróa vöru fyrir börn til að vera hjá þeim þegar foreldrarnir geta það ekki af einhverjum ástæðum. Það þróaðist í Lúllu. Þegar kom að því að framleiða dúkkuna í lok árs 2014 fórum við í hópfjármögnun á Indiegogo til að framleiða fyrstu 5.000 dúkkurnar sem komu í september 2015. Þær seldust upp í desember og í kjölfarið söfnuðum við endurgjöf frá notendum og gerðum ákveðnar breytingar til hins betra. Næsta pöntun var upp á 30.000 dúkkur sem tók tíma að fjármagna en tókst á endanum. Þær eru tilbúnar núna, komu í vöruhúsið okkar á þriðjudag og eru þegar uppseldar.“

Á síðustu tveimur vikum hefur verið fjallað um dúkkuna víða um heim og hún varð nokkurs konar internetæði því varla er hægt að fletta erlendum netmiðlum án þess að rekast á umfjöllun um dúkkuna. „Þetta ævintýri hefur farið fram úr björtustu vonum og umfjöllunin er mun meiri en ég átti von á. Síðustu þrír dagar hafa verið ansi fjörugir,“ segir Eyrún en næturnar hafa verið langar hjá henni vegna tímamismunar og hefur hún yfirleitt lagst á koddann um fimmleytið. „Við sem stöndum að dúkkunni horfum bara á þessa umfjöllun gerast héðan frá Íslandi. Hoppum frá einum miðli yfir á annan.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert