Opnar bókasafn í flóttamannabúðum

Kristín Rós Kristjánsdóttir t.h., ásamt Þórunni Ólafsdóttur, formanni samtakanna Akkeri.
Kristín Rós Kristjánsdóttir t.h., ásamt Þórunni Ólafsdóttur, formanni samtakanna Akkeri. Ljósmynd/Aðsend

Kristín Rós Kristjánsdóttir hyggst opna bókasafn í flóttamannabúðum í Þessalóníku í Grikklandi og vonast til að geta sett það upp í næstu viku, en hún heldur til Grikklands um næstu helgi. Kristín, sem er búsett í Lundúnum, segir hugmyndina hafa vaknað þegar hún starfaði sem sjálfboðaliði í búðunum.

„Aðstæðurnar í búðunum snertu mig djúpt og þá sérstaklega þolinmæði og andi flóttafólksins sem neyðist til að hírast í hertjöldum í niðurrifnum verksmiðjum. Andrúmsloftið í búðunum einkennist af ótta við framtíðina og endalausri bið. Enginn í þessari stöðu er viss um framtíð sína eða hefur stjórn á henni.“

Safnar fyrir bókakaupum

Um 820 búa í búðunum, þar af um 400 undir 18 ára aldri, en íbúar þeirra komu þangað frá flóttamannabúðunum í Idomeni við landamæri Grikklands og Makedóníu í maí. Hafa þeir því dvalið í Þessalóníku í tvo til þrjá mánuði og munu verða þar áfram í aðra sex.

Um næstu helgi heldur Kristín til Grikklands og vonast til bókasafnið verði þá sett upp í einhverri mynd. „Ég er að fara út á sunnudaginn og verð í 10 daga og vonast til að koma upp stað og reglu á þetta þá. Ég verð að vinna þetta með flóttamönnunum í búðunum og ætla að reyna að fá fleiri sjálfboðaliða í þetta. Þannig að á þessum 10 dögum hugsa ég að bókasafnið verði sett upp í a.m.k. einhverri mynd. Það mikilvægasta er að fólkið fái aðgang að þessum bókum eins fljótt og auðið er.“

Söfnun fyrir verkefnið hefur verið komið á fót, en fjármagn þarf bæði fyrir bókakaupum og uppsetningu safnsins. „Söfnunin gengur fínt og fór af stað fyrir rétt rúmri viku. Ætlunin er að safna um 1.000 pundum til að geta sett upp bókasafn og keypt bækur og kennsluefni á arabísku. Söfnunin stóð í um 350 pundum seinast þegar ég athugaði. En þetta er svona allt á uppleið.“

„Þessi peningur sem verið er að safna mun fara í að kaupa arabískar bækur og arabískt-enskt kennsluefni. Líka í að koma upp einhvers konar aðstöðu - kaupa kannski hillur eða geymslubox, stóla, borð, mottur, skuggatjöld. Það fer svolítið eftir því hvernig gengur að koma aðstöðunni upp í búðunum.“

Fjölbreytni bókanna mikilvæg

Hafa nú um 200 bækur verið gefnar til safnsins, en þær eru á ensku, sem íbúar búðanna eru misvel mæltir á. Bækur safnsins verða af ýmsum toga, en Kristín segir mest hafa verið gefið af barnabókum og skáldsögum. „Það sem við höfum fengið mest gefið af eru barnabækur og skáldsögur fyrir börn, unglinga og fullorðna. Það er eitthvað um það sem kallað er „easy reading“ lestrarbækur á ensku. Reyndar fengum við góða gjöf á arabísk-ensku kennsluefni fyrir börn og unglinga frá útgefanda.“

„Börnin tala auðvitað litla ensku. Þetta samfélag í búðunum er kúrdískt sýrlenskt fólk og það talar arabísku. Það er eiginlega alveg ógerlegt að nálgast efni á kúrdísku en ég vonast til að fá kennsluefni á ensku og arabísku, svo það verði hægt að kenna þessi tvö mál.  Svo myndi ég vilja fá kennsluefni í stærðfræði líka. Vonandi verður síðan hægt að kaupa bækur á arabísku í samfélagsfræði eða félagsfræði, sögu eða slíku og ég er að vonast til að ég geti fengið fullorðið fólk í búðunum til að lesa það og vonandi kenna áfram.“

Kristín segir fjölbreytni bóka safnsins nauðsynlega, enda tali íbúar búðanna misgóða ensku og mikilvægt sé að fólk geti bæði lesið bækur á erfiðleikastigi sem það ræður við en hafi jafnframt aðgang að þyngra efni.

„Flestir tala einhverja ensku og alveg reiprennandi og vel hægt að eiga flókin samtöl við þau. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að fá sem fjölbreyttastan texta og enskubækur á alls kyns stigum svo fólk geti fundið eitthvað við sitt hæfi og líka einhverja áskorun, svo það geti haldið áfram að bæta sig. Þetta er rosalega mikilvægt fyrir það núna, þegar það er í ástandi þar sem það veit ekki hvert það fer næst. Enskan er alþjóðamál og mun hjálpa þeim alls staðar, svo það er mikil þörf fyrir enskubækur og kennsluefni.“

Verkefnið ber heitið „Book 4 Refugees“ og leggja má því lið á söfnunarsíðu þess, sem finna má hér.

Einnig er hægt að fylgjast með gangi verkefnisins, en Kristín setur reglulega inn upplýsingar á ensku á heimasíðu söfnunarinnar, sem finna má hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert