Heiðra minningu látinna félaga

Frá vettvangi flugslyssins.
Frá vettvangi flugslyssins. Skapti Hallgrímsson

Bílaklúbbur Akureyrar og flugfélagið Mýflug ætlar að heiðra minningu látinna félaga klúbbsins og mannanna tveggja sem létust þegar lítil flugvél brotlenti á Hlíðarfjallsvegi rétt fyrir ofan Akureyri á athafnasvæði klúbbsins í byrjun ágúst árið 2013. Tveir steinar, minnisvarðar um þá látnu, verða afhjúpaðir kl. 17 í dag.

Páll Steindór Steindórsson, flugstjóri og Pétur Róbert Tryggvason, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður létu lífið í slysinu.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyri flytur ávarp ásamt því að tónlist verður leikin á milli dagskrárliða. Boðið verður upp á veitingar og verður spyrnubraut klúbbsins opin frá kl. 19. Geta bílstjórar og hjólreiðamenn spreytt sig í brautinni. Ekki er um formlega keppni að ræða.

„Þetta er annars vegar minnisvarði um látna félaga Bílaklúbbs Akureyrar og hins vegar um þá Palla og Pétur sem fórust í þessu slysi,“ segir Þorkell Ásgeir Jóhannsson, flugstjóri hjá Mýflugi. „Þetta eru veglegir steinar sem við fundum hérna úti í sveit, þeir koma bara eins og steinar eiga að koma, með mosa og skófum, náttúrulegir.“

Minnisvarðarnir verða inni á svæði klúbbsins. Allir eru velkomnir til afhafnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert