„Píratar eru ekki jafnaðarmenn“

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Píratar eru ekki jafnaðarmenn og þeirra stefna er ekki jafnaðarstefna á heildina litið. Við erum jafnaðarmenn og það vita allir hvaða verkefni við viljum leggja áherslu á ef við komumst í ríkisstjórn. Ég er ekki sammála því að það eigi með sama hætti við um Pírata,“ segir Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, um ummæli Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, í viðtali við Harmageddon í dag.

Össur sagði þar að enginn munur sé á Pírötum og Samfylkingu. „Það er enginn munur á Pírötum og Samfylkingu eða ég þekki hann ekki. Hver er sá munur? Ef þið eruð að tala um afstöðu Birgittu Jónsdóttur um að við skulum hafa örstutt kjörtímabil, níu mánuði, og kjósa þá um stjórnarskránna þá er það þannig að ég tel það óraunhæft.“

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég tel að ef menn setja svona dagsetningar þá verða þær að skotspæni og stjórnarandstaðan nýja mun gera sér far um að brjóta þær niður,“ sagði Össur í Harmageddon í morgun.

Oddný segir að vissulega séu samstarfsfletir á milli flokkanna tveggja. „Það eru nokkur mál sem Píratar hafa tekið upp frá okkur eins og til dæmis fiskveiðistjórnarmálið. Það eru augljósir samstarfsfletir,“ segir Oddný. 

Sjá frétt mbl.is: Hugnast ekki stutt kjörtímabil

Hún er þó sammála Össuri um að það sé ekki sniðugt að gefa út dagsetningar um lengd þingsins fyrir kosningar. 

„Þegar við lentum í tímahraki með stjórnarskrána á síðasta kjörtímabili þá nýtti frekar ósvífin stjórnarandstaða sér það tímahrak til þess að drepa málið. Ég vil ekki að við förum aftur af stað þannig að við séum að búa til slíkt aftur. Ég vil ekki að við setjum upp einhverjar dagsetningar sem auðvelt er að beita málþófi gegn. Ef stjórnarskrármálið næst í gegn, þá metur maður bara framhaldið. En ég vil ekki að við setjum okkur tímamörk því það býður hættunni heim,“ segir Oddný.

Oddný segir að engar viðræður hafi átt sér stað á milli Samfylkingarinnar og hinna stjórnarandstöðuflokkanna um samstarf eftir kosningar sem haldnar verða í haust. Spurð hver afstaða hennar sé varðandi kosningar nú í haust segir Oddný að Samfylkingin hafi viljað kosningar þegar í vor, en að fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafi lofað þjóðinni að kjörtímabilið yrði stytt um eitt þing og að þeir verði að standa við það loforð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert