Viðgerðastandur skemmdur í Elliðaárdal

Búið er að klippa verkfærin af standinum og taka af …
Búið er að klippa verkfærin af standinum og taka af ventil á pumpunni. Standurinn er því svo gott sem gagnslaus eftir þetta skemmdarverk. Mynd/Anton Gunnarsson

Óprúttnir skemmdarvargar eyðilögðu einn af þeim hjólaviðgerðastöndum sem fyrirtækið Fossberg kom upp á höfuðborgarsvæðinu í sumar. Skorin voru af honum verkfæri sem hugsuð voru til viðgerða á hjólum auk þess sem klipptur var af ventill á hjólapumpunni sem tilheyrir standinum.

Anton Gunnarsson sagði frá málinu á Facebook-síðunni Reiðhjólabændur, en það er hópur fólks sem fer reglulega í lengri hjólatúra um höfuðborgarsvæðið. Í samtali við mbl.is segir Anton að hann fari þarna fram hjá mjög reglulega og af viðbrögðum fólks að dæma virðist vera sem standurinn hafi verið eyðilagður í gær eða fyrradag.

Anton segir standa sem þessa vera mjög þægilega fyrir hjólreiðafólk, sérstaklega þar sem nokkuð langt er í næstu bensínstöð. Þá búi standarnir sem Fossberg setti upp á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu yfir betri áhöldum en á flestum bensínstöðvum, ef frá er talið N1 sem hafi sett upp svipaða standa á flestum sínum stöðvum.

Ljóst er að einhver tími hefur farið í að taka verkfærin af standinum og ventilinn af pumpunni að sögn Antons og því sé um einbeittan brotavilja að ræða. Segir hann að von hjólreiðafólks hafi verið að þessir standar fengju að vera uppi í góðan tíma, en þetta sýni að alltaf séu einhverjir sem eyðileggi fyrir heildinni.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, opnuðu brýrnar í Elliðaárdal, en við sama tækifæri voru standarnir settir upp.

Í umræðum um málið hjá Reiðhjólabændum kemur fram að á Akureyri hafi einn standur verið settur upp og hafi hann fengið að vera í friði í um eitt ár.

Það er fyrirtækið Fossberg sem hafði veg og vanda af því að setja þennan viðgerðastand upp ásamt þeim sem staðsettur er í Nauthólsvík. Gunnar Örn Benediktsson, sölu-og markaðsstjóri fyrirtækisins, segir í samtali við mbl.is að þeir hafi alltaf vitað að það yrði eitthvert viðhald og mögulega skemmdir. „Við bjuggumst alltaf við einhverjum barnalegum sem gæti ekki látið þetta í friði en vissum ekki hversu mikið yrði skemmt,“ segir hann og bætir við að það sé leiðinlegt að svona samfélagsverkefni einkafyrirtækis sé skemmt, en það komi því miður ekki á óvart. 

Gunnar segir að næsta verkefni sé að koma við í Elliðaárdalnum og laga standinn, en fyrirtækið metur í sumar hversu mikil viðhaldsþörf er á slíkum stöndum upp á frekari uppsetningu og sölu á þeim.

Uppfært: Starfsmenn Fossberg hafa núna lagað viðgerðastandinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert