Tilboðstími ekki lengdur

Herjólfur í Landeyjarhöfn. Ríkiskaup segja ekki hægt að framlengja tilboðstímann …
Herjólfur í Landeyjarhöfn. Ríkiskaup segja ekki hægt að framlengja tilboðstímann vegna nýrrar ferju. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tilboð í smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju verða opnuð hjá Ríkiskaupum 25. ágúst næstkomandi.

Ríkiskaup annast útboðið fyrir hönd Vegagerðarinnar og var útboðið auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu um miðjan júní sl. Frá og með 15. júní voru útboðsgögn aðgengileg á vef Ríkiskaupa og síðan var opnað fyrir fyrirspurnir frá áhugasömum bjóðendum á vefnum.

Fyrirspurnafrestur er til 16. ágúst nk. og hafa nú þegar borist á annað hundrað fyrirspurnir og er þeim svarar jafnharðan.

Fram kemur í fyrirspurnum frá innlendum og erlendum aðilum að útboðstíminn sé of stuttur og er óskað eftir því að hann sé framlengdur um nokkrar vikur. Meðal annars kemur fram að nú sé háannatími sumarleyfa erlendis og hægt gangi að fá tilboð frá framleiðendum og birgjum.

Öllum slíkum fyrirspurnum svara Ríkiskaup á þann veg að því miður sé ekki hægt að framlengja skilatíma tilboðanna að því er greint er frá í Morgunblaðinu í dag.

Fyrirspurnirnar eru nafnlausar en eftirfarandi er fyrirspurn frá íslensku fyrirtæki:

„Í samskiptum við erlendar skipasmíðastöðvar hafa komið fram áhyggjur af stuttum útboðstíma.

Það er mat okkar að sú staðreynd geti og muni hafa áhrif á þau verð sem skipasmíðastöðvar gefa í verkið til hækkunar á tilboðsfjárhæð.

Undirverktakar og birgjar skipasmíðastöðva eru óvissir um að geta gefið nákvæm og hagstæðustu verð sökum tímaskorts sem hefur þær afleiðingar að óvissa um kostnað viðkomandi verkþáttar verður metin hærri en ella til að tryggja að boðið verð sé ekki undir mögulegu lokaverði. Í tengslum við útboðið þarf bjóðandi að fá tilboð frá skipasmíðastöðvum og í framhaldi sníða það að heildartilboði sínu og sú vinna tekur ákveðinn tíma.

Af þessum sökum óskum við eftir sex vikna framlengingu á skilatíma útboðs eða til 6. október.“

Útboðið tvíþætt

Auglýsing Ríkiskaupa var tvíþætt. Annars vegar var óskað eftir tilboðum í smíði á nýrri ferju til fólks-, bíla- og vöruflutninga milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar í samræmi við fyrirliggjandi hönnunarlýsingu. Hins vegar var óskað eftir tilboðum í einkaframkvæmd, þ.e. að þjónustuaðili eigi og byggi ferju í samræmi við fyrirliggjandi hönnunarlýsingu og annist rekstur ferjunnar milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja, samkvæmt nánari skilgreiningu útboðsgagna. Samningstími verði 12 ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert