Giftu sig um borð í varðskipi

Jennifer Barrett og Magnús Guðmundsson um borð í varðskipinu Óðni, …
Jennifer Barrett og Magnús Guðmundsson um borð í varðskipinu Óðni, sem liggur við Sjóminjasafnið í Reykjavík. Hún er frá Hull og hann frá Reykjavík en rekur ættir sínar m.a. til síldarbæjarins Siglufjarðar.

„Við ætluðum upphaflega að gifta okkur einhvers staðar fyrir utan safnið, ég sendi póst til athafnastjóra hjá söfnum Reykjavíkur og hún lagði til að við giftum okkur á skipinu sem okkur fannst alveg tilvalið,“ segir Magnús Guðmundsson, sem kvæntist Jennifer Barrett um borð í varðskipinu Óðni á Menningarnótt í Reykjavík sl. laugardag.

Varðskipið er hluti af Sjóminjasafninu í Reykjavík en þar stendur yfir sýningin „Þorskastríðin“ sem fjallar um deilur milli Íslands og Bretlands um fiskveiðiréttindi á Íslandsmiðum á árunum 1958-1976.

Magnús og Jennifer vissu af sýningunni og vildu giftast í nálægð við hana þar sem Jennifer er frá ensku sjávarborginni Hull, en útgerðin frá borginni varð fyrir miklu tjóni eftir þorskastríðin.

Varðskipið Óðinn tók þátt í öllum þorskastríðunum og þótti því kjörin staðsetning fyrir brúðkaupið.

„Við vorum aftast í skipinu, undir þyrlupallinum. Birgir, sem sá um skipið, tók rosalega vel á móti okkur og þetta fór allt saman mjög vel.“

Hafa fyrirgefið þorskastríðin

Í Hull er togari með nafninu Arctic Corsair til sýnis. Togaranum var siglt á skut Óðins í þorskastríðinu eftir að varðskipsmenn reyndu í þrígang að klippa togvíra skipsins. Magnús segir að Jennifer hafi oft farið um borð í togarann, en hann hafi ekki haft tækifæri til þess. „Ég hef komið til Hull og farið á sjóminjasafnið þar, en ekki séð skipið,“ segir hann.

Öll föðurætt Jennifer er frá Hull og voru þónokkrir brúðkaupsgestir þaðan mættir til Reykjavíkur. Að sögn Magnúsar var mikill áhugi á meðal þeirra um skipið. Ensku gestirnir voru þó langflestir búnir að fyrirgefa þorskastríðin. „Amma Jennifer var fullorðin kona á meðan stríðin gengu yfir og hún á það til að segja að þau hafi sett reykinn í Reykjavík en flestum öðrum er orðið sama,“ segir Magnús.

Hittust á netinu

Magnús og Jennifer búa saman í miðbæ Reykjavíkur. Þau kynntust á netinu, en þá var Jennifer þegar flutt til Íslands þar sem hún á nokkra vini.

Að athöfn lokinni var skálað í kampavíni, á miðri Menningarnótt.
Að athöfn lokinni var skálað í kampavíni, á miðri Menningarnótt.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert