Setti Íslandsmet í sínum fyrsta Járnkarli

Rúnar Örn fór heilan járnkarl á 8 klukkustundum, 43 mínútum …
Rúnar Örn fór heilan járnkarl á 8 klukkustundum, 43 mínútum og 34 sekúndum. Ljósmynd/Aðsend

Rúnar Örn Ágústsson hafnaði í þrettánda sæti í Járnkarlinum sem fram fór í Kaupmannahöfn á sunnudaginn. Rúnar Örn fór heilan járnkarl á 8 klukkustundum, 43 mínútum og 34 sekúndum. Með því bætti hann fyrra Íslandsmet Geirs Ómarssonar um rúmar fimm mínútur. Rúnar Örn var þriðji í mark úr flokki áhugamanna en annar í aldursflokknum 30-34 ára. Með frammistöðu sinni öðlaðist Rúnar Örn þátttökurétt á heimsmeistaramótinu í Járnkarli sem haldið verður á Hawaii í október.

„Árið 2007 datt ég óvart inn í einhvern þátt um Ironman-keppnina í Hawaii, þá var ég ekki byrjaður í þríþraut né neinu. Lýsingin í þættinum var mjög dramatísk, að þetta væri afar erfið keppni sem tæki einn dag. Þá hugsaði ég strax að þetta væri geggjað og eitthvað sem ég þurfti að gera einn daginn,“ segir Rúnar Örn. Árið 2011 prófaði hann síðan sína fyrstu þríþraut og þá var ekki aftur snúið. 

Rúnar Örn á hjólinu í Járnkarlinum.
Rúnar Örn á hjólinu í Járnkarlinum. Ljósmynd/Aðsend

Hljóp maraþon á 3:02:05 

Rúnar Örn setti stefnuna á að taka þátt í Járnkarlinum í Kaupmannahöfn í fyrra en þurfti að hætta við þátttöku þar sem hann viðbeinsbrotnaði sjö vikum fyrir keppni. Því var stefnan sett á keppnina í ár. Í Járnkarlinum byrja keppendur á því að synda 3,8 kílómetra. Rúnar Örn tók sundið á 58:39 mínútum og var eftir það staddur í 83 sæti. Því næst skipta keppendur yfir í hjólagallann og hjóla 180 kílómetra. Rúnar Örn hjólaði á 38,88 kílómetra meðalhraða á klukkustund og hafnaði í 39 sæti. Hjólreiðarnar tóku 4:37:39 klukkustundir en þá átti Rúnar eftir að skipta yfir í hlaupaskóna og hlaupa heilt maraþon. Rúnar Örn hljóp á meðalhraðanum 4:19 mín./km og lauk maraþoninu á 3 klukkustundum, 2 mínútum og 5 sekúndum. Hann lauk því Járnkarlinum á 8 klukkustundum, 43 mínútum og 31 sekúndu.

Spurður um hver sé sín sterkasta hlið segir Rúnar það eflaust vera gott hjól sem hann nær að fylgja eftir með góðu hlaupi. „Í öllum þeim keppnum sem ég hef farið í, bæði hér heima og erlendis, hefur það verið þannig að þeir strákar sem hjóla hraðar en ég hlaupa síðan mun hægar. Minn styrkleiki felst í því að geta átt sterkt hjól en síðan get ég líka hlaupið á við hröðustu menn,“ segir Rúnar Örn.

Rúnar Örn ásamt eiginkonu sinni og dóttur.
Rúnar Örn ásamt eiginkonu sinni og dóttur. Ljósmynd/Aðsend

Notar frítímann í æfingar 

Rúnar Örn starfar sem verkfræðingur hjá Mannviti og á eiginkonu og barn. Hann stundar því æfingar fyrir Járnkarlinn í þeim frítíma sem hann hefur en andstæðingar hans eru margir hverjir atvinnumenn og hafa því allan daginn undir æfingar. „Þetta er búið að vera mikið púsluspil og vinirnir og fjölskyldan eru svolítið búin að sitja á hakanum síðan í apríl þar sem fókusinn er búinn að vera 120% á þetta,“ segir Rúnar Örn.

Frá því í júlí hefur Rúnar Örn æft í um tuttugu klukkustundir á viku. „Þetta eru þrjár sundæfingar á viku, fimm hjólaæfingar og um sex hlaupaæfingar. Ég æfi á morgnana og eftir vinnu en stundum í hádeginu líka. Allar æfingar eru massífar og sérstaklega um helgar því þá eru þær lengri,“ segir Rúnar Örn.

Næstu vikuna ætlar Rúnar Örn að slaka á og taka nokkrar léttar æfingar en byrjar svo strax að undirbúa sig fyrir heimsleikana í Hawaii. Hann er ánægður með æfingaprógrammið sem hann fylgdi fyrir þessa keppni og ætlar því að halda sínu striki fyrir heimsleikana í október. „Hvíldin kemur síðan eftir heimsleikana,“ segir Rúnar Örn að lokum.

Rúnar Örn að keppni lokinni.
Rúnar Örn að keppni lokinni. Ljósmynd/Aðsend
Rúnar Örn að undirbúa sig í keppni.
Rúnar Örn að undirbúa sig í keppni. Ljósmynd/Aðsend
Rúnar Örn hljóp maraþonið í Járnkarlinum á 3 klukkustundum, 2 …
Rúnar Örn hljóp maraþonið í Járnkarlinum á 3 klukkustundum, 2 mínútum og 5 sekúndum. Ljósmynd/Aðsend
Rúnar Örn tekur hvíldina út í október þegar heimsmeistaramótinu er …
Rúnar Örn tekur hvíldina út í október þegar heimsmeistaramótinu er lokið. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert