„Þetta er alls ekki góður tími“

Frá framkvæmdunum í morgun.
Frá framkvæmdunum í morgun. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Við vitum að þetta er alls ekki góður tími fyrir þessa staðsetningu en það var ekki annað í boði,“ segir Friðrikka Hansen hjá Vegagerðinni.

Hún er umsjónarmaður malbikunarframkvæmdanna sem hafa staðið yfir á Miklubraut í dag. Þær hófust snemma í morgun og lýkur á milli tvö og þrjú í dag.

Í morgun voru skólar settir víða um höfuðborgarsvæðið og hittu framkvæmdirnar því illa á. Umtalsverðar tafir mynduðust á Miklubrautinni með auknum umferðarþunga.

Frétt mbl.is: Töluverðar tafir á Miklubraut

Spurð hvers vegna ekki hafi verið hægt að ráðast fyrr í framkvæmdirnar segir hún að beðið hafði verið með þær vegna framkvæmda Orkuveitunnar við Miklubraut og Kringlumýrarbraut.

Frétt mbl.is: Malbiksskortur frestaði framkvæmdum

„Sú framkvæmd átti að fara fram í júní og endaði á að fara fram í ágúst, þannig að þetta tafðist,“ segir Friðrikka. „Síðustu tvær vikur hafa heldur ekki verið hagstæðar í veðri vegna bleytu.“

Töluverðar tafir mynduðust í morgun.
Töluverðar tafir mynduðust í morgun. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Hin akreinin á morgun 

Malbikað hefur verið í dag til austurs og því verður haldið áfram í sömu átt á morgun, en á hinni akreininni. Vinnusvæðið byrjar við gatnamót við Lönguhlíð og nær að gatnamótum við Kringlumýrarbraut. „Þeir stefna á að byrja eldsnemma og vera búnir fyrir aðalumferðarteppuna seinnipartinn,“ segir Friðrikka.

Síðar í vikunni verður hafist handa við malbikun á Sæbraut. Þar er einn kafli eftir, á milli Holtavegar og Kleppsvegar, á tveimur akreinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert