Kosið um þrektæki, hundagerði og aparólu

Frá Kópavogi.
Frá Kópavogi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Í dag hófst kosning í verkefninu Okkar Kópavogur, en þar eru settar fram 100 hugmyndir í fimm hverfum bæjarins og geta íbúar Kópavogs kosið í hvaða verkefni 200 milljóna potti verður varið. Meðal þeirra verkefna sem eru í boði er uppsetning á þrektækjum á nokkrum stöðum, hundagerði og aparóla. Þá eru einnig nokkur fegrunarverkefni, gróðursetning og umferðaröryggismál á málalistanum.

Hugmyndasöfnun verkefnisins fór fram í vor, bæði á vef verkefnisins og íbúafundum. Hverfin fá ráðstafað fé í hlutfalli við fjölda íbúa og er þar af leiðandi mestum fjármunum, eða 64 milljónum, varið í Digranesið.

„Kópavogsbúar sýndu verkefninu Okkar Kópavogur mikinn áhuga og skiluðu fjölmörgum spennandi hugmyndum inn. Nú er komið að því að kjósa og ég vonast til að sem flestir taki þátt og hafi þannig áhrif á umhverfi sitt og nærsamfélag,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, í tilkynningu frá bænum.

„Nú er tækifæri fyrir íbúa að velja verkefni og taka þannig þátt í forgangsröðun fjármuna sveitarfélagsins,“ segir Theodóra S. Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs Kópavogs.

Kosning á milli verkefna stendur frá 25. ágúst til 4. september. Íbúar Kópavogs, 16 ára og eldri, geta tekið þátt. Velja þarf eitt hverfi til að kjósa í en þátttakendur þurfa ekki að velja hverfi eftir búsetu.

Kosningin fer fram á vef verkefnisins Okkar Kópavogur. Rafrænn kjörstaður verður á Bókasafni Kópavogs og í þjónustuveri bæjarskrifstofanna meðan á kosningu stendur. Þar verður hægt að fá aðgang að tölvum og aðstoð. Þjónustan er veitt á afgreiðslutíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert