3.000 hakkarar etja kappi

Það getur komið sér vel að kunna að hakka til …
Það getur komið sér vel að kunna að hakka til að verjast öðrum hökkurum. AFP

Alþjóðlegu hakkarakeppninni IceCTF lýkur í dag þegar bestu hakkaralið keppninnar verða tilkynnt. Þetta er í annað sinn sem keppnin er haldin en að henni standa Háskólinn í Reykjavík og upplýsingaöryggisfyrirtækið Syndis. 

Undanfarnar tvær vikur hafa um 3.000 keppendur frá 118 löndum þreytt hakkaraþrautir af ýmsum toga. Meðal annars nýta þeir sér sömu tækni og Anonymous-samtökin til að brjótast inn í líkan af banka, brjóta veikleika í dulkóðun eins og bandaríska þjóðaröryggisstofnunin (NSA) hefur verið ásökuð um og svindla á afbrigði af Pokémon Go-leiknum.  

Erlendur keppendurnir þurfa ekki að gera sér ferð til Íslands enda er enginn miðlægur keppnisstaður. Hver keppandi getur tekið þátt í hvaða heimshorni sem er ef hann á tölvu. 

Læra án þess að brjóta lög

Forsprakkar keppninnar eru þeir James Elías Sigurðarson, Hlynur Óskar Guðmundsson og Heiðar Karl Ragnarsson, allir nemendur við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík og hlutastarfsmenn hjá Syndis. Í samtali við mbl.is sagði Hlynur Óskar að teymið hefði fengið góð viðbrögð utan úr heimi og sérstaklega við þrautunum sem það hefur unnið nótt sem dag við að útfæra. 

„Við höfum skrifað kóða að frumlegum og skapandi þrautum og fólk hefur verið mjög ánægt með útkomuna. Okkur hefur borist hrós um að þetta sé í heimsmælikvarða.“

Hlynur segir að tilgangur keppninnar sé að veita áhugasömum forriturum grundvöll fyrir tilraunastarfsemi án þess að hætta sé á lögbroti. 

„Við erum að koma forriturum í spor hakkara og gefa þeim upplýsingar til að prófa sig áfram þannig að þeir þurfi ekki að vera að brjóta einhver vefkerfi til að læra á þetta. Við erum að efla tölvuöryggisþekkingu hjá forriturum sem vita ekki hvar þeir eiga að byrja.“

Bestu hakkarar Íslands 2016 verða kynntir í sal M101 í HR á kl 16 í dag og hljóta vegleg verðlaun frá Syndis og Háskólanum í Reykjavík. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert