Viðvörun í gildi vegna Múlakvíslar

Katla.
Katla.

Jarðhitavatn rennur í Múlakvísl. Aukin rafleiðni hefur mælst í ánni og gasmælingar á svæðinu sýna há gildi á brennisteinsdíoxíði og brennisteinsvetni. Fólki er bent á að staldra ekki lengi í nágrenni við ána vegna gasmengunar. Ekki er óalgengt að jarðhitavatn renni í Múlakvísl með tilheyrandi rafleiðniaukningu og gasmengun í ánni, segir á vef Veðurstofu Íslands.

Mikið jökulvatn er í Bláfjallakvísl sem rennur frá norðurhluta Mýrdalsjökuls. Ferðafólk er hvatt til að gæta varúðar og sýna aðgát þar sem vöð yfir ána gætu verið varhugaverð.

Rólegt á skjálftavaktinni í nótt

Engir jarðskjálftar hafa mælst á Mýrdalsjökli og nágrenni í nótt en vel á fimmta tug jarðskjálfta mældust við Kötlu í Mýrdalsjökli í fyrrinótt og voru flestir þeirra fyrir klukkan þrjú.

„Þetta er allt saman orðið mjög rólegt núna, það kom einn skjálfti um þrjúleytið í dag sem mældist um þrjú stig en síðan hefur þetta bara verið mjög rólegt,“ sagði Sigþrúður Ármannsdóttir, náttúruváfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

Sigþrúður segir engin sjáanleg merki vera um kvikuhreyfingar í Kötlu í gær í kjölfar jarðskjálftans. Skjálftar á þessu svæði eru ekki endilega boðberar eldgoss. „Það voru stórir skjálftar árin 1977 og 1989, þetta gerist bara af og til,“ sagði hún.

Katla hefur að meðaltali gosið á 40 til 80 ára fresti frá landnámstímum, en síðasta Kötlugos var fyrir 98 árum. Að sögn Sigþrúðar greinir menn á um hvort smærra gos hafi verið árið 1955, en síðasta staðfesta Kötlugos var árið 1918. „Þannig að það var svo sem kominn tími á eldgos fyrir löngu.“

Að sögn Sigþrúðar lítur Veðurstofan til þess við mat á alvarleika skjálftanna hvort einhver órói fylgi þeim. „Um leið og við sjáum óróa sem gæti tengst gosi, eða vatnsóróa, er eitthvað meira að gerast. Í þessu tilfelli var enginn órói.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert