Lykillinn að hjóla ekki í sjálfstæðismenn

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lykillinn að velgengni Viðreisnar er að hjóla ekki fast í sjálfstæðismenn heldur að ná til hópa innan flokksins sem ekki eru sáttir þar núna og hafa ekki fengið gott brautargengi undanfarið. Þetta sagði Andrés Jónsson almannatengill í þættinum Vikulokin á Rás 1 í dag.

Rætt var um framboð Viðreisnar og sagði Andrés að það virtist vera sem flokkurinn ætlaði að setja upp fléttulista í öllum kjördæmum þar sem karl og kona væru til skiptis. Þá benti hann á að innan Sjálfstæðisflokksins væri hópur kvenna sem hefði ekki fengið brautargengi og gæti séð Viðreisn sem álitlegan kost. Nefndi Andrés sérstaklega Þóreyju Vilhjálmsdóttur, fyrrverandi aðstoðarmann Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Sagði Andrés þær báðar hafa ákveðinn hóp á bak við sig sem gæti hugsað sér að kjósa Viðreisn, en þá ætti flokkurinn ekki að hjóla beint í Sjálfstæðisflokkinn til að fá fólk í flokknum beint á móti sér.

Í þættinum var einnig rætt um ákvörðun Benedikts Jóhannessonar, formanns flokksins, að bjóða sig fram í Norðausturkjördæmi. Sagði Karl Pétur Jónsson almannatengill að þetta skref hefði verið snjallt hjá Benedikt. Taldi hann Benedikt ekki með gríðarlega mikinn kjörþokka og að hann hafi því valið að fara í kjördæmi á landsbyggðinni þar sem hægt væri að nýta uppbótaratkvæði til að fá mann inn vegna meira fylgis frambjóðenda t.d. í Reykjavíkurkjördæmunum eða í Kraganum. Því væri sætið hans í Norðaustur í raun einskonar baráttusæti.

Andrés Jónsson almannatengill og eigandi Góðra samskipta.
Andrés Jónsson almannatengill og eigandi Góðra samskipta.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert