Gagnrýnir flugvallarskrif Sigmundar Davíðs

Höskuldur Þórhallsson segir Sigmund Davíð ranglega eigna ríkisstjórn Sigurðar Jóhannessonar …
Höskuldur Þórhallsson segir Sigmund Davíð ranglega eigna ríkisstjórn Sigurðar Jóhannessonar ábyrgðina á sölu lands í Vatnsmýrinni. mbl.is/Golli

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, gagnrýnir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann flokksins, harkalega vegna skrifa hans um Reykjavíkurflugvöll í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

Eins og kunnugt er seldi ríkið Reykjavíkurborg land í Vatnsmýrinni samkvæmt samkomulagi sem þáverandi fjármálaráðherra gerði við þáverandi borgarstjóra skömmu fyrir alþingiskosningarnar 2013.

Ýmsir hafa gagnrýnt sölu landsins og segja hana ekki standast skoðun, m.a. Sigmundur Davíð. Í grein sinni segist Höskuldur sammála gagnrýni vegna sölunnar á landinu, en hann geri „verulegar athugasemdir við þær ávirðingar sem óneitanlega beinast að ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar, rangar söguskýringar og villandi efnistök í greininni,“ ritar Höskuldur.

Höskuldur segir söluna ekki hafa verið verk ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar, heldur skrifist hún alfarið á ráðherra Sjálfstæðisflokksins. „Eingöngu var um að ræða ákvörðun núverandi innanríkisráðherra og fjármálaráðherra sem báðir tilheyra Sjálfstæðisflokknum,“ segir Höskuldur í grein sinni.

Núverandi forsætisráðherra og þingmenn Framsóknarflokksins hafi hvergi komið að málinu þegar ákvörðunin um söluna var tekin, líkt og skilja mætti af grein Sigmundar Davíðs.
Þá segir hann fullyrðingar Sigmundar Davíðs um að skilyrði hafi verið í samkomulaginu um söluna vegna landsins að horfið yrði frá því að semja um lokun neyðarbrautarinnar ótrúverðugar, ef ekki beinlínis rangar.  

Þá spyr hann hvers vegna Sigmundur Davíð hafi látið það viðgangast að samkomulagið var undirritað, enda sé lokun neyðarbrautarinnar að sínu mati stærsti áfanginn í því að „bola flugvellinum í burtu.“

„Af hverju fyrrverandi forsætisráðherra lét það viðgangast að samkomulagið um lokun neyðarbrautarinnar væri undirritað, beinlínis fyrir framan augun á honum, er algjörlega óútskýrt.

Einnig hvers vegna ríkisstjórnin var ekki kölluð þá þegar saman og þess krafist að samkomulaginu yrði rift. Ef ekki hefði verið orðið við því hefði verið hægt að leggja fram þingmál til að ógilda samkomulagið eins og Hæstiréttur staðfesti í sumar að heimilt hefði verið. Þá hefði fyrrverandi forsætisráðherra verið í lófa lagið að krefjast þess að þingmál um skipulagsvald Reykjavíkurborgar, sem allur þingflokkur Framsóknarflokksins stendur á bak við, færi í atkvæðagreiðslu, því slíkt er á hans valdi. Engar slíkar aðgerðir voru framkvæmdar þótt tækifæri hefði verið til á sínum tíma,“ segir í greininni.

Höskuldur er einn af þremur sem bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð til þess að leiða lista framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi. Hinir frambjóðendurnir eru Þórunn Egilsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert