Eldriborgarar fjölmenntu á Austurvöll

Eldra fólk fjölmennti á Austurvöll í dag þar sem Félag …
Eldra fólk fjölmennti á Austurvöll í dag þar sem Félag eldri borgara og Grái herinn efndu til útifundar. mbl.is/Golli

„Eldra fólk í þessu landi líður skort og stjórnmálamönnum og ráðamönnum finnst það bara allt í lagi,“ segir Helgi Pétursson, dagskrárgerðarmaður og talsmaður Gráa hersins, í samtali við mbl.is. Félag eldri borgara og Grái herinn efndu til útifundar á Austurvelli síðdegis í dag þar sem eldra fólk kom saman í von um að ná til eyrna stjórnvalda og var vel mætt á fundinn að sögn Helga.

„Bull og þvæla“

„Það er ekkert annað hægt að gera. Það er búið að vinna drög að frumvarpi í ellefu ár og færustu sérfræðingar leggja til að menn komi ekki nálægt því að samþykkja þetta því að þetta sé bara bull og þvæla,“ segir Helgi sem telur jafnframt að óvild ríki í garð eldri borgara af hálfu stjórnmálamanna.

Í tilkynningu frá Gráa hernum, sem er baráttuhópur FEB, segir að félagið telji brýnt að hækka sérstaklega laun þeirra er verst eru settir og afnema skerðingarnar í tryggingakerfinu. Skerðingarnar geri til dæmis það að verkum að fólki sé gert ókleift að bæta kjör sín með því að vinna lengur, sem Helgi segir út í hött þar sem vilji stjórnvalda sé að fólk vinni lengur fram eftir aldri. Telur félagið og Grái herinn að frumvarp Eyglóar Harðardóttur, húsnæðis- og félagsmálaráðherra, gangi of skammt í þessum efnum.

Eldra fólk um 50 þúsund atkvæði

„Við munum horfa og hlusta á það sem menn hafa fram að færa og kjósa samkvæmt því. Við erum sennilega í kringum 50 þúsund atkvæði og munum hvetja fólk til þess að beina atkvæðum sínum þangað sem við teljum líklegast að menn muni efna hluti,“ segir Helgi, það sé gert til að leggja áherslu á kröfu félagsins um mannsæmandi laun fyrir allt eftirlaunafólk. 

Loks hvetur Grái herinn fólk til að mæta á borgarafund sem haldinn verður hinn 28. september í Háskólabíói þar sem forystumenn stjórnmálaflokkanna munu sitja fyrir svörum um það sem þeir eru tilbúnir að gera til að bæta kjör elstu kynslóðarinnar í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert