Goðafoss fundinn af þýskum kafara

Thomas Weyer heillaðist af örlögum Goðafoss og lagði í mikla …
Thomas Weyer heillaðist af örlögum Goðafoss og lagði í mikla vinnu við að finna skipið sem legið hefur á hafsbotni frá 1944.

Þýski kafarinn Thomas Weyer fann nú í sumar farþegaskipið Goðafoss, sem legið hefur á hafsbotni frá því að þýskur kafbátur sökkti skipinu með tundurskeyti í nóvember 1944 með þeim afleiðingum að 24 fórust. Nákvæm lega Goðafoss á hafsbotni hefur verið á huldu frá því að skipið sökk, allt að því að þýska tímaritið Spiegel greindi frá fundi Weyer nú í dag. En sögu Goðafoss líkir Spiegel við Titanic - þetta sé saga mikilla fórna og góðs ásetnings.

Og Weyer er lýst sem manni sem þyrsti í það sem ekki sé sýnlegt – skipsflök sem virðist ófinnanleg.

Það var á bókamessu í Þýskalandi árið 2011 sem Weyer heyrði fyrst um Goðafoss. Hann varð þá vitni að því er einn Íslendinganna sem lifðu sjóslysið og fyrrverandi þýskur sjóliði tókust í hendur með tárin í augunum. Weyer fannst stundin rafmögnuð. „Flakið hafði aldrei fundist og til þessa dags höfðu ástvinir þeirra sem fórust með Goðafossi ekki getað syrgt á slysstað. Hvar var skipið?“  

Þrengdi leitarsvæði með frásögnum vitna

Með því að nota gamlar staðsetningaskráningar komst hann að því að skipið hlyti að liggja á um 40 metra dýpi. Hann leitaði uppi staðsetningu bauja, hverjar skipaleiðir hefðu verið á þeim tíma, hvar kafbáturinn hefði verið þegar hann skaut tundurskeytinu og á hvaða hraða hann hefði siglt.

Weyer nýtti sér líka Facebook til að hafa uppi á frásögnum íslenskra vitna að árásinni. Einn hafði horft á Goðafoss sökkva út um gluggann heima hjá sér og annað vitni sá skipið sökkva frá öðrum stað. Weyer var nú kominn með tvær sjónlínur og náði þar með að þrengja svæðið þar sem Goðafoss sökk niður í rúmlega 5,5 ferkílómetra svæði.

Í byrjun þessa árs setti Weyer saman teymi sem skyldi koma með honum til Íslands. Þann 10. júlí flugu þeir síðan til Íslands og sigldu út frá Reykjavík með svonefnda borðstokksómsjá (e. Side Scan Sonar) sem dregin var meðfram bátnum og varpaði stöðugt upp myndum af því sem sást á hafsbotni. Einn liðsmannanna sat stöðugt við skjáinn og fylgdist með því sem fyrir augu bar.

Forsíða Morgunblaðsins sunnudaginn 12. nóvember 1944. 24 fórust með Goðafossi …
Forsíða Morgunblaðsins sunnudaginn 12. nóvember 1944. 24 fórust með Goðafossi er skipið sökk.

Lá undir metra lagi af sandi

Þriðja daginn sá maðurinn við skjáinn eitthvað sem greip athygli hans og bað skipstjórann um að fara aftur yfir þann stað.

Nokkrum klukkustundum síðar, þegar búið var að vinna úr myndunum af hafsbotni, sáu þeir útlínur skipsflaks og þegar þeir báru stærð flaksins á myndinni saman við myndir af Goðafossi hvarf þeim allur vafi.

„Weyer tók upp farsíma sinn og myndaði skjáinn. Skipið lá undir um eins metra þykku lagi af sandi, sem var ástæða þess að enginn hafði fundið það.“

Telur mögulegt að losa Goðafoss úr sandinum

„Thomas Weyer hafði fundið Goðafoss,“ segir í grein Spiegel, sem kveður engum hafa verið greint frá fundinum þar til greinin kom út.

Weyer vonast til að geta farið aftur til Íslands með betri búnað til að eyða þeim efasemdum sem enn kunni að leynast hjá einhverjum Íslendingum um fundinn.

Hann myndi líka gjarnan vilja kafa niður að skipinu og telur jafnvel mögulegt að losa það úr sandinum. Ólíklegt sé hins vegar að slíkt verði gert vegna kostnaðarins. Atlantshafið hefur grafið skipið, segir hann. „Það verðum við að sætta okkur við.“

Uppfært laugardaginn 10. september klukkan 18:18: 

Íslenskur kafari fullyrðir að Thomas Weyer fari með rangt mál, flakið hafi í raun aldrei fundist. Tæki sem notuð voru við leitina hafi gefið vísbendingar um flakið, en þær hafi ekki reynst réttar þegar nánar var að gáð. 

Sjá frétt mbl.is: Segir Goðafoss ekki fundinn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert