„Nafnið er í raun okkar“

mbl.is/Hjörtur

„Okkar krafa er ríkari en þeirra,“ segir Malcolm Walker, stofnandi Iceland-verslanakeðjunnar, um mögulegar aðgerðir íslenskra stjórnvalda vegna nafnsins Iceland. Walker tjáði sig um málið í gær og bar m.a. þau rök á borð að fyrirtækið hefði notast við nafnið í heil 45 ár.

„Hvaða mögulegu von eiga þau? Við fáum fimm milljónir viðskiptavina til okkar í hverri viku, þau eru 300.000 sem búa þarna.

Þannig að okkar krafa er ríkari en þeirra. Nafnið er í raun okkar.“

The Mail on Sunday hefur eftir Walker að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem deilt er um nafnið.

„Þetta kemur upp á nokkra ára fresti, þetta er hálfgerður brandari. Ég held að það séu kosningar í vændum - þetta er almannatengslabrella,“ segir hann.

The Mail segir málið nokkuð kaldhæðnislegt í ljósi þess að verslanakeðjan var á sínum tíma í eigu íslenskra stjórnvalda.

Walker, sem stofnaði Iceland árið 1969, yfirtók fyrirtækið á ný árið 2012. Hann segir samskiptin við stjórnvöld hafa verið vinsamlegri í fyrri tíð, þegar hann tók á móti ónefndum forsætisráðherra og leiddi hann um eina verslunina.

Í frétt Mail on Sunday segir hins vegar að sambandið hafi kulnað þegar fyrirtæki Walker reyndi að koma í veg fyrir að stjórnvöld og íslensk fyrirtæki notuðu orðið Iceland í nöfnum sínum eða merkjum í Bretlandi og innan Evrópusambandsins.

The Mail hefur eftir heimildarmanni að vonir standi til að málið fái farsæla lausn.

Malcolm Walker, stofnandi Iceland.
Malcolm Walker, stofnandi Iceland. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert