Kröftug norðurljós yfir borginni

Norðurljósasýningin yfir höfuðborginni í gærkvöldi.
Norðurljósasýningin yfir höfuðborginni í gærkvöldi. Skjáskot/Sævar Helgi Bragason og Snorri Þór Tryggvason

Góðar aðstæður hafa verið til að berja norðurljósin augum síðustu daga. Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, segir að næstu kvöld lofi sömuleiðis mjög góðu en hann tók glæsilegt myndskeið af litadýrðinni í gærkvöldi. Sýningin gæti jafnvel orðið enn öflugri á miðvikudaginn.

Myndskeiðið tóku Sævar Helgi og Snorri Þór Tryggvason upp frá Perlunni í gærkvöldi en þá var von á góðri og litskrúðugri norðurljósasýningu. Í lok myndskeiðsins sést það sem kallast norðurljósakóróna sem er einkar glæsileg og fylgir jafnan kröftugum norðurljósahrinum. Þá er eins og norðurljósin stefni frá sama punkti á himninum. 

„Næstu kvöld lofa mjög góðu. Við erum á leið í gegnum straum af sólvindi sem mun valda góðum norðurljósum út vikuna. Sólvindurinn berst út úr stóru gati í kórónu sólarinnar, lofthjúpnum sem umlykur hana. Haustin eru einna besti tími ársins til að sjá norðurljós svo þetta er allt í takt við það,“ segir Sævar Helgi.

Litadýrðin skýrist af hæð norðurljósanna og efnunum sem sólvindurinn örvar. Græni liturinn stafar af örvuðu súrefni í um 100 km hæð en fjólublái liturinn frá nitri sem er lægra.

„Það eru góðar líkur á álíka litskrúðugri og jafnvel aðeins kröftugri norðurljósasýningu á miðvikudagskvöld. Vonandi viðrar vel sem víðast svo flestir sjái hana,“ segir Sævar Helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert