Fær ekki 28 milljónir í bætur

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hæstiréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem karlmanni höfðu verið dæmdar 28,7 milljónir króna í bætur ásamt vöxtum vegna vinnuslyss sem átti sér stað í janúar 2008. Maðurinn hafði farið fram á að fá greiddar 38,8 milljónir króna í bætur frá Vátryggingafélagi Íslands. Hæstiréttur sýknaði hins vegar félagið af kröfunni.

Vinnuslysið átti sér stað í vöruhúsi á vegum Johan Rönning hf. en maðurinn starfaði sem verkstjóri hjá fyrirtækinu. Maðurinn var ásamt þremur öðrum að bera glerplötur á vörubretti í lagerrými á efri hæð í vöruhúsinu. Hafði öryggishlið á hæðinni verið fjarlægt til þess að lyftari gæti lyft brettinu niður á neðri hæð. Vitni báru að maðurinn hefði verið meðvitaður um að öryggishliðið hefði verið fjarlægt og það verið gert með hans vilja.

Þegar síðasta platan hafði verið lögð á brettið tók maðurinn skref aftur á bak og féll við það um fjóra metra niður á steinsteypt gólf. Við það slasaðist hann alvarlega og var hann metinn eftir slysið með 100% örorku. Fram kemur í dómi Hæstaréttar að maðurinn hafi sem verkstjóri borið ábyrgð á að tryggja að fyllsta öryggis væri gætt á vinnustaðnum. 

Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að ekkert í gögnum málsins sýni að nauðsynlegt hafi verið að hafa öryggishliðið opið á meðan verið var að stafla glerplötunum á brettið. Þvert á móti hafi ekkert verið því til fyrirstöðu að hafa hliðið lokað á meðan hlaðið væri á brettið og opna það þegar hífa þyrfti brettið niður. Ekkert bendi til þess að öryggishliðinu hafi verið ábótavant.

„Samkvæmt þessu verður orsök slyssins ekki rakin til atvika, sem aðaláfrýjandi ber fébótaábyrgð á, heldur þess að öryggishliðið var ekki fyrir opinu þegar glerplatan var lögð á brettið og gagnáfrýjandi gætti ekki að sér við þær aðstæður. Verður aðaláfrýjandi því sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda,“ segir í dómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert