Veðrið skiptir um gír á laugardag

Búast má við einhverri rigningu í höfuðborginni um helgina.
Búast má við einhverri rigningu í höfuðborginni um helgina. mbl.is/Styrmir Kári

„Það verður rólegheitaveður á morgun. Verður kannski aðallega þungbúið suðaustanlands, þykknar þar upp smáum saman með rigningu seinni partinn,“ segir Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is, þegar hann fer yfir hvernig veðri landsmenn megi búast við um helgina.

Meinlaust veður verður á morgun og hér á suðvesturhorninu ætti að vera bjart áfram eins og hefur verið í vikunni. Á laugardaginn, 1. október, þykknar hins vegar upp:

„Veðrið skiptir um gír á laugardag. Þá hvessir með rigningu vestast á landinu. Það verður komin strekkings suðaustan átt suðvestan- og vestanlands með rigningu þegar komið er fram á laugardag,“ segir Hrafn en búast má við betra veðri í öðrum landshlutum. „Það verður hægara og tiltölulega bjart víða austantil og á Norðurlandi.“

Spár gera ráð fyrir því að enn bæti í vind á sunnudaginn. „Þá erum við að tala um allhvassan vind syðst á landinu en annars staðar verður strekkingur. Það fylgir þessu einhver úrkoma, sérstaklega á Suðausturlandi en það verður líka einhver úrkoma suðvestanlands. Veður verður fínt á Norðurlandi og það ætti að haldast þurrt þar.“

Áttin verður suðaustlæg og hitatölurnar fara hækkandi. „Það verður nokkuð milt þegar kemur fram á sunnudag og besta veðrið verður á Norðurlandi.“

Gera má ráð fyrir einhverju næturfrosti í nótt og aðfaranótt laugardags inn til landsins á Suðurlandi.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert