Fær miskabætur vegna gæsluvarðhalds

Maðurinn sætti gæsluvarðhaldi í 36 daga en héraðsdómur segir að …
Maðurinn sætti gæsluvarðhaldi í 36 daga en héraðsdómur segir að það hefði mátt marka gæsluvarðhaldinu allt að helmingi skemmri tíma. Það var hins vegar talið fullt tilefni til að handtaka manninn. mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða karlmanni 550.000 krónur í miskabætur vegna gæsluvarðhaldsvistar í 36 daga þar sem sakamál á hendur honum var fellt niður.

Maðurinn, sem bjó erlendis, var sakaður um kynferðisbrot, eftirlýstur á Schengen-svæðinu og var síðan framseldur til landsins vegna málsins. Auk þess var maðurinn úrskurðaður í farbann í 28 daga. 

Maðurinn stefndi ríkinu í apríl í fyrra og krafðist þess að það myndi greiða honum fimm milljónir í bætur. 

Var eftirlýstur á Schengen-svæðinu

Málið á rætur að rekja til ársins 2012, en þann 21. maí það ár barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kæra vegna meints kynferðisbrots af hálfu mannsins gagnvart sambýliskonu sinni, en brotið átti að hafa átt sér stað í lok mars sama ár.

Lögreglan sendi manninum tölvupóst í júlí 2012 og tilkynnti honum að hann yrði að mæta í skýrslutöku vegna málsins. Maðurinn, sem þá dvaldist erlendis, lýsti yfir sakleysi sínu og sagði að hann hefði ekki efni á því að fljúga til Íslands í skýrslutöku. Í lok ágúst fór lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu þess á leit við innanríkisráðuneytið að það óskaði eftir því að maðurinn yrði eftirlýstur á Schengen-svæðinu og hann handtekinn og framseldur ef til hans næðist. Gaf Héraðsdómur Reykjavíkur út handtökuskipun að beiðni lögreglu.

Maðurinn var handtekinn 6. ágúst 2013 og þann 28. ágúst fóru íslensk yfirvöld fram á það að maðurinn yrði framseldur til Íslands. Framsalsbeiðnin var samþykkt og var hann framseldur hingað til lands 10. september 2013. Við komuna til Íslands var hann færður í fangageymslu á lögreglustöðinni við Hverfisgötu og vistaður þar um nóttina. Daginn eftir var hann yfirheyrður af lögreglu og í kjölfarið úrskurðaður í farbann til 9. október 2013. Þnan 26. september var málið sent embætti ríkissaksóknara sem tók þá ákvörðun að fella málið niður. Í bréfi ríkissaksóknara er því lýst að það sem fram hafi komið við rannsókn málsins þætti ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis og því væri málið fellt niður.

Sagði brotið á sínum helgustu mannréttindum

Maðurinn höfðaði mál á þeirri forsendu að hann hefði með ólögmætum hætti verið sviptur frelsinu og ríkisvaldið hefði þannig brotið á hans helgustu mannréttindum. Hann vísaði til þess að hann hefði alltaf neitað sök undir rannsókn málsins og miðað við rannsóknargögn virðist grunur lögreglu nær eingöngu hafa byggst á framburði konunnar.

Þá byggði hann á því, að það lægi fyrir að hann hefði saklaus sætt gæsluvarðhaldi eða sambærilegri frelsissviptingu í 36 daga og síðan í framhaldinu þurft að þola farbann á Íslandi í 28 daga. 

Íslenska ríkið mótmælti þeirri málsástæðu mannsins að hann hefði með ólögmætum hætti verið sviptur frelsi sínu. Einnig að ríkisvaldið hefði brotið gegn persónufrelsi hans með því að láta lýsa eftir honum á grundvelli handtökuskipunar, og í framhaldi óska eftir framsali hans hingað til lands, eftir að hann hafði verið handtekinn í öðru landi. Maðurinn hefði verið undir rökstuddum grun um að hafa framið alvarlegt brot gegn almennum hegningarlögum sem gæti varðað allt að 16 ára fangelsi.

Full tilefni til að handtaka manninn en gæsluvarðhaldið of langt

Héraðsdómur féllst á það með ríkinu að maðurinn hefði í upphafi stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisti kröfu sína á og var það mat dómsins að fullt tilefni hefði verið til þess að handtaka hann og halda í gæsluvarðhaldi þar til hann yrði framseldur til Íslands til skýrslutöku.

Héraðsdómur segir aftur á móti, að telja verði þann tíma sem maðurinn var sviptur frelsi sínu óhæfilega langan. Ríkið hafi ekki gefið haldbærar skýringar á því hvað valdið hafi töfinni.

„Í þessu ljósi þykir stefnandi hafa sætt gæsluvarðhaldi lengur en efni stóðu til og á hann rétt á bótum,“ segir í dómi héraðsdóms. Það sé mat dómsins að að ekki verði dregin önnur ályktun en sú, að unnt hefði verið að flýta framsalsferlinu. Þætti rétt að miða við að með því hefði mátt marka gæsluvarðhaldi mannsins allt að helmingi skemmri tíma.   

Maðurinn sætti farbanni í 28 daga sem fyrr segir, eða frá 11. september 2013 til 8. október 2013. Héraðsdómur segir að umræddur tími verði ekki talinn óeðlilega langur en málið á hendur manninum var fellt niður með ákvörðun ríkissaksóknara rúmum fjórum vikum eftir að stefnandi kom til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert