Rannsaka sjálfbæra orku á norðurslóðum

Frá undirritun samningsins. Frá vinstri: Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, René …
Frá undirritun samningsins. Frá vinstri: Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, René Roy, verkefnastjóri loftslagsbreytinga hjá Hydro-Québec, Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, Alain Bourque, stjórnandi hjá Quranos, Philippe Couillard, forsætisráðherra Québec (standandi), Cloude Arbour, rektor vísindarannsóknarháskólans í Québec, Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskóla Reykjavíkur, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og René Therrien frá Laval-háskóla. Ljósmynd/Aðsend

Landsvirkjun, Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík hafa gert samning við fyrirtæki, háskóla og stofnanir í Québec-fylki í Kanada, um samstarf á sviði rannsókna og þjálfunar á sviði sjálfbærrar orku á norðurslóðum.

Philippe Couillard, forsætisráðherra Québec, var viðstaddur þegar fulltrúar samningsaðila frá Québec og Íslandi skrifuðu undir samninginn á Arctic Circle-ráðstefnunni í Hörpu.

Samkvæmt samningnum munu aðilar stofna til sameiginlegra rannsókna á sviði loftslagsmála og sjálfbærrar nýtingar. Þá munu þeir einnig hafa samstarf um umsjón háskólastúdenta og starf fræðimanna og sérfræðinga og skipuleggja sameiginleg námskeið fyrir fræðimenn og nemendur, svo eitthvað sé nefnt, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Auk þess munu þeir skiptast á kennslugögnum, fræðigreinum, líkönum og hugbúnaði og hafa samstarf um að leita fjármögnunar á rannsóknastarfi, heima fyrir og á alþjóðlegum vettvangi.

 „Það er okkur hjá Landsvirkjun mikil ánægja að fá að taka þátt í þessu samstarfi með virtum stofnunum og fyrirtækjum í Québec og hér heima. Viðfangsefnin hér og þar eru um margt hin sömu – nýting endurnýjanlegra og sjálfbærra orkugjafa og baráttan við loftslagsbreytingar, sem Québec-búar gera sér grein fyrir, eins og við, að er eitt af stærstu málum samtímans og getur skipt sköpum fyrir framtíð okkar allra,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert