Boðar skýrslu um umfang aflandsfélaga

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ætlar á næstu dögum að skila skýrslu um umfang aflandsfélaga. Þetta sagði hann í svari við fyrirspurn Óttars Proppé, þingmanns Bjartrar framtíðar, á Alþingi. 

Óttarr spurði Bjarna út í skattheimtu og hver sé staðan á aðgerðum til að koma í veg fyrir skattaundanskot. Vísaði hann þar í birtingu Panamaskjalanna. Einnig spurði hann hvernig gengið hefði að taka á kennitöluflakki.

Bjarni svaraði því þannig að tekjur ríkissjóðs, skatttekjur og aðrar tekjur hafi farið mjög vaxandi. Skattaprósentan hafi verið lækkuð á lágtekju- og millitekjufólk. Einnig hafi verið gert átak til að styrkja virðisaukaskattkerfið. „24% virðisaukaskattur er sá lægsti sem við höfum nokkru sinni haft,“ sagði Bjarni og bætti við að virðisaukaskattkerfið hefði skilað auknum tekjum.

„Skatttekjur hafa verið að skila sér vel á Íslandi. Við erum með frumjöfnuð sem er með því mesta sem þekkist í Evrópu.“

Hann bætti við: „Við vitum af skattsvikum, við vitum af undanskotum og lögbrotum sem ávallt þarf að fylgjast með og taka á,“ sagði hann og nefndi að svarta hagkerfið væri of stórt. Lagði hann áherslu að að tryggja þurfi nægilegt fjármagn til þeirra embætta sem reyna að sporna við þessu.

„Kennitöluflakk er ekki bara vandamál út frá skattheimtusjónarhorninu. Það er miklu alvarlegra mál hvað snertir eðlilega og heilbrigða samkeppni. Það er óþolandi að samkeppnisaðili komist upp með að koma alltaf fram með nýja kennitölu. Hvað varðar aflandsfélög mun ég á næstu dögum skila skýrslu um þau mál sem ég boðaði í vor varðandi umfang þeirra,“ sagði Bjarni. 

Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Óttarr Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert