„Eðlilegasti hlutur í heimi“

Unnur Brá heldur á barninu í ræðustól.
Unnur Brá heldur á barninu í ræðustól. Ljósmynd/Skjáskot

„Það voru atkvæðagreiðslur og hún vaknaði þannig að ég þurfti að taka hana með mér inn. Þá var hún eðli málsins samkvæmt svöng,“ segir Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Hún vakti mikla athygli þegar hún mætti með nýfædda dóttur sína á brjósti í ræðustól á Alþingi í dag.

„Betra en að láta hana gráta“

Hún segir að það hafi ekki verið planað að halda ræðu á Alþingi í dag en vegna þess að annar þingmaður gaf atkvæðaskýringu um mál sem hún flytur þurfti hún að bregðast við því.

Frétt mbl.is: Með barnið á brjósti í ræðustól

„Það var ekkert annað að gera en að annaðhvort rífa barnið af brjóstinu og biðja Svandísi Svavarsdóttur um að passa eða bara taka hana með. Ég ákvað að það væri minni truflun af þessu en svo kannski var þetta bara aðeins meira mál en ég hafði gert ráð fyrir. Mér fannst þetta bara betra en að láta hana fara að gráta,“ útskýrir Unnur Brá.

Yfirleitt sofandi í vinnunni

Hún segir að dóttir sín, sem fæddist 1. september síðastliðinn, hafi verið með sér í nokkrar vikur í vinnunni og yfirleitt sé hún sofandi þegar hún er í þingsal. Því hafi hún lítið sem ekkert truflað þingstörfin.

Unnur Brá hefur fengið jákvæð við brögð við atvikinu á samfélagsmiðlum og segist hún vera ánægð með það. „Er þetta ekki bara eðlilegasti hlutur í heimi að gefa barninu sínu að borða?“

Hún kveðst ekki vita til þess að þetta hafi gerst áður á þingi. Spurð hvort þetta hafi mögulegt fordæmisgildi þar á bæ segir hún: „Er Ísland ekki þannig að maður má gera þetta? Ég held að það sé bara fínt að búa í þannig landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert